Skoðun

Búum við í Undralandi?

Fanný Gunnarsdóttir skrifar
Þeir sem þekkja söguna um Lísu vita að ekki var allt sem sýndist í Undralandi. Þar gekk á með draumsýnum, mótsögnum og rökvillum. Getur verið að við hér á Fróni lifum þessi misserin í svipuðum veruleika? Nú fer í hönd kosningavetur og stjórnvöld gera allt til þess að draga upp glansmyndir af ástandi mála, færa stöðu þjóðarinnar í jákvæðan búning og gefa út loforð um útgjöld sem greiða á í komandi framtíð og eru án innistæðu. Ég ætla ekki að gera lítið úr þeirri stöðu sem núverandi stjórnvöld og þjóðin öll stóð andspænis og auðvitað hefur þokast í rétta átt – annað hefði verið óeðlilegt með öllu.

En þegar nálgast uppgjör og kosningar verður að vega og meta eftir hlutlausum og faglegum forsendum hvernig til hafi tekist. Álitsgjafar, pistlahöfundar, fræðimenn og ýmsir fjölmiðlar halda vel á lofti þeirri spurningu hvort það komi eitthvað betra ef núverandi stjórn fer frá völdum. Með ótta í röddu er fólk ítrekað spurt að því hvort það vilji fá aftur gömlu hrunflokkana þó svo að annar þeirra leiði núverandi ríkisstjórn. Því er haldið að fólki að „stjórnmálastéttin“ sé öll eins og sami grauturinn í skálum „fjórflokksins“. Umfjöllunin einkennist af því að fulltrúar stjórnarandstöðunnar beiti málþófi og tali þjóðina niður án þess að koma með neinar tillögur til úrbóta. Þessu vil ég mótmæla. Með þessum málflutningi og áherslum er verið að fá kjósendur til þess að sætta sig betur við það sem við höfum, horfa ekki í aðrar áttir og kynna sér ekki stefnu og fjölmargar tillögur m.a. Framsóknarflokksins. Við heyrum að það verði að hreinsa út og skipta um fólk. Það er jafnvel talað um að kjósa fólk en ekki flokka. Ég vil minna á að við síðustu kosningar var veruleg breyting á þingmönnum þegar um þriðjungur þingmanna voru nýir á þingi, einnig kom inn nýr flokkur án fortíðar – Borgarahreyfingin – sem klofnaði fljótlega. Ég get ekki séð að þar hafi komið hryggjarstykkið í breyttu landslagi. Ég vil nú líka meina það að ef við kjósum einstaklinga, hversu ágætir sem þeir eru, verða þeir hluti af umræddri stjórnmálastétt um leið og þeir stíga fæti inn fyrir dyr Alþingis. Ég sé líka fyrir mér atganginn þegar 63 ólíkir og ótengdir einstaklingar reyna að ná saman í þeim mörgu ólíku málum sem upp koma. Þarf þá ekki að koma með málamiðlanir, ná samstöðu og láta af stefnunni sem viðkomandi var kosinn út á?

Núverandi stjórnvöld sigla áfram út kjörtímabilið í skjóli umræðu sem þessarar þó svo að margt hafi ruggað skútunni og ótrúleg mál skotið upp kollinum sem þjóðin hefur fylgst með. Stjórnin er á engan hátt samstíga í veigamiklum málum, skoðanir skiptar og nú heyrist opinberlega að nú vilji ákveðnir ráðherrar og stuðningsmenn staldra við og endurmeta aðild og aðlögun að ESB sem þó var í stjórnarsáttmálanum og er einn aðal-björgunarhringur forsætisráðherra og félaga hennar. Það væri hægt að nefna mörg mikilvæg mál sem stjórninni hefur ekki auðnast að landa sökum ósamkomulags og óvandaðra vinnubragða. Neyðarúrræðið er að setja mál í nefnd, jafnvel taka það úr höndum fagráðherra og þæfa það og svæfa og lifa eftir stefnunni að flýtur meðan ekki sekkur. Stjórnvöld draga upp myndir af jákvæðu ástandi, allt sé að færast til betri vegar og kreppan jafnvel að baki, aðeins nokkrir lausir endar sem enn þurfi að hnýta. En hvernig er raunveruleg staða og lífið í Undralandi? Tugþúsundir í alvarlegum greiðsluvanda og hafa aldrei verið fleiri, gjaldþrotum er ekki að fækka, almenningur upplifir enn tregðu þegar kemur að aðstoð eða leiðréttingu skulda og dómsmál eru lengi að veltast í kerfinu. Ekki er heldur hægt að segja að skuldastaða ríkissjóðs sé góð og áfram er safnað skuldum. Þrátt fyrir það kom ríkisstjórnin í vor fram með loforðalista þar sem lofað var ýmsu sem landsmenn hafa kallað eftir s.s. aðkallandi vegaframkvæmdum og auknu fé í menntun og nýsköpun. Fjármagna átti þessu álitlegu loforð með fjármunum sem alls ekki eru í hendi. Landsmenn áttu að gleðjast þegar þeir sáu snemmkominn kosningaloforðalista sem greiða átti í framtíðinni m.a. með hugsanlegum tekjum af boðuðum auðlindagjöldum. Lofað og kveiktar vonir en fjármagn er ekki til, ríkissjóður er rekinn með tæplega 90 milljarða halla árið 2011 eða 43 milljörðum lakari en ráð var fyrir gert og stefnir í tugmilljarða halla á þessu ári. Aðeins vaxtagreiðslur af SpKef nema rúmum 6 milljörðum. Það þarf að auka umsvif í atvinnulífinu, efla þannig tekjustofna ríkisins og stoppa skuldasöfnun áður en lagt er af stað með loforðalista sem láta vel í eyrum rétt fyrir kosningar.

Lítið er rætt um að aldrei hefur atvinnuþátttaka verið minni hér á landi en nú skv. tölum Hagstofunnar sem hóf mælingar 2003. Vinnumálastofnun hefur áhyggjur af stöðu þeirra sem eru búnir að vera sem lengst atvinnulausir, enn flytja margir til útlanda í leit að tryggara lífi, fjöldi fólks vinnur um lengri eða skemmri tíma erlendis án þess að flytja lögheimilið, hluti ungra atvinnulausra er í tímabundnum átaksverkefnum, námi eða á vinnumarkaði en enginn getur tryggt að þeir komi ekki aftur inn á skrár atvinnulausra. Þetta er slæm staða í ljósi þess að aldrei hafa fleiri í þessum viðkvæma hópi verið án atvinnu. Vonandi tosast atvinnulífið í rétta átt en ekki má gleyma að tímabundin störf bætast alltaf við yfir sumarmánuðina sökum sumarafleysinga og í tengslum við ferðaþjónustu. En í raun er lítið um verulega atvinnuuppbyggingu að ræða og það væri fróðlegt að fá að heyra aftur svör ráðherra eins og Katrínar Júlíusdóttur og Össurar fyrir margt löngu þegar þau sögðu þjóðinni ítrekað að bíða aðeins. Það væri aðeins daga-, viku- eða mánaðaspursmál hvenær við fengjum að sjá ný fyrirtæki og uppbyggingu í atvinnumálum. Ýmislegt er nú tínt til sem sýna á umsnúninginn hjá þjóðinni. En það sem hefur gefið hagkerfinu jákvæða innspýtingu er m.a. koma makríls, veruleg aukning á loðnu og gott verð á íslenskum útflutningsvörum. Síðan er það fjölgun ferðamanna til landsins, en það er efni í aðra grein að fjalla um hvort ekki sé tímabært að skoða frá öllum hliðum hve umhverfisvænt það er í raun að stefna að því að fjölga hér ferðamönnum til muna. Ekki má heldur gleyma að hagkerfið er njörvað niður með gjaldeyrishöftum sem verður áður en yfir lýkur eins og lekt bútasaumsteppi og verulegum erfiðleikum bundið að losa um höftin. Þegar haldið er áfram að rýna betur í raunverulegt líf okkar heyrum við áhyggjuraddir þegar horft er til velferðarkerfisins þó svo að við eigum að trúa því að hér starfi velferðarstjórn. Framhaldsskólar og háskólar hafa orðið verulega fyrir niðurskurði og fram hefur komið í máli skólameistara og ráðherra að ástandið bitni verulega á nemendum, námsfyrirkomulagi og þjónustu. Ekki er minna rætt um slæma stöðu í heilbrigðiskerfinu, læknum fækki, verri þjónustu og auknu álagi á starfsfólk. Ég vil því hér að lokum hvetja lesendur til þess að horfa gagnrýnum augum á málflutning stjórnvalda, hlusta eftir því sem sagt er og ekki síður eftir því sem ekki er sagt. Það skiptir okkur öll miklu máli að vel takist til í vor þegar kosið verður næst til þings. Nýrrar stjórnar bíða krefjandi verkefni við að efla fjölbreytta atvinnu og skila fjármunum til baka inn í velferðarkerfið þar sem skorið hefur verið inn að beini. En ekki hvað síst verða stjórnvöld að ná því að vinna til baka virðingu, traust og nauðsynlegt samband sem þarf að vera á milli þjóðar og stjórnmálamanna.




Skoðun

Skoðun

Stöðvum hel­víti á jörðu

Birna Þórarinsdóttir,Bjarni Gíslason,Gísli Rafn Ólafsson,Sigríður Schram,Stella Samúelsdóttir,Tótla I. Sæmundsdóttir skrifar

Sjá meira


×