Skoðun

Ríkisstjórnin hafnar nýsköpun og framförum

Jakobína Ingunn Ólafsdóttir skrifar
Nýsköpun felur í sér lærdóm og kallar í mörgum tilvikum á ný viðmið þegar tekist er á um hvað sé skynsamlegt og eðlilegt. Eftir hrun gerðu margir Íslendingar sér vonir um að stjórnmálamenn myndu læra af hrakförum íslenska þjóðarbúsins og bæta starfshætti í stjórnsýslunni. Hrunið er talandi dæmi um það hversu klíkumenning stjórnmálaflokkanna er hættuleg almenningi.

En umbætur í íslenskri stjórnsýslu eru nýsköpunarverkefni sem krefst breytts hugarfars og að menn komi auga á mikilvægi annarra markmiða en þeirra sem stýrðu þjóðarbúinu í þrot.

Lágkúran í íslenskri stjórnmála- og stjórnsýslumenningu birtist vel í götusaltsmálinu þegar eftirlitsaðili heimilaði ölgerðinni að klára birgðirnar af salti sem ætlað er til iðnaðar og selja þær til matvælaframleiðslu. Þátttaka landlæknis í leyndarspili um gallaða brjóstapúða er annað dæmi um kæruleysi og fyrirlitningu gagnvart íslenskum neytendum.

Víðast hvar í hinum vestræna heimi er talið að þegar menn eru skipaðir í ráðherraembætti sé þeim falin ábyrgð á þeim stofnunum sem heyra undir viðkomandi ráðuneyti. Það er viðtekið að þegar stjórnendur stofnana bregðast er það skylda ráðherra að sjá til þess að fjarlægja viðkomandi stjórnendur og skipa hæfa stjórnendur í þeirra stað. Þetta er þáttur í því að tryggja gæði stjórnsýslunnar, ásýnd um öryggi og mikilvægur þáttur í að skapa traust meðal almennings.

Á Íslandi bera innan við 10% almennings traust til Alþingis og traust til annarra stofnana fer þverrandi. Geðþóttavald og rassvasabókhald eru einkenni á íslenskri stjórnsýslu. Steingrímur Joð hefur talað um, í ræðum erlendis, mikilvægi þess að sannfæra almenning um nauðsyn. Taka ákvarðanir og sannfæra almenning um nauðsyn þeirra. Í þessu birtist hugsunarháttur forræðishyggjunnar.

Málflutningur Steingríms líkist í þessu málflutningi sérhagsmunaafla á borð við LÍÚ. Ef ákvarðanir ríkisvaldsins eru almennt vondar fyrir almenning en þjóna þröngum hagsmunum fjármálakerfis og einokunarhafa þá er eins gott að hafa sannfæringarkraftinn og friðþægja þjóðina.

Leyndarhyggjan styður geðþóttavaldið sem fylgir sérhagsmunagæslunni. Hentar það ekki ráðherrum að fara eftir eðlilegum sjónarmiðum um stjórnsýslugæði við embættisverk? Enda dregur það úr valdi ráðherrans sem þá þarf að lúta faglegum sjónarmiðum sem ekki samræmast endilega hans persónulegu þörfum.

Í þessum töluðu orðum er Steingrímur Joð að beita sannfæringarkraftinum við að réttlæta að farið sé á svig við gæði í ráðningarferli ráðuneytisstjóra. Hann reisir sjálfum sér stall og hlutgerir ríkið í sjálfum sér. Hann ætlar ekki að auglýsa starf ráðuneytisstjóra heldur að ráða hann á persónulegum nótum í gegnum „samninga“.

En ríkið er ekki Steingrímur Joð heldur þjóðin og það kerfi sem þjóðin vill að sé mótað til þess að framfylgja vilja hennar.




Skoðun

Sjá meira


×