Skoðun

Hvert skal stefna í ferðaþjónustu

Steinar Frímannsson skrifar
Vöxtur ferðaþjónustu er mikið í umræðu nú um stundir. Mest er talað um hversu mikinn hag við höfum og gætum haft af ferðaþjónustunni. Einnig hefur hið undarlega mál varðandi sölu eða leigu Grímsstaða á Fjöllum vakið talsverða umræðu.

Ferðaþjónustan á við vanda að stríða, sem getur átt eftir að koma niður á framtíðinni. Sá vandi er að það er engin raunveruleg stefna varðandi atvinnugreinina sem heild. Tíunda hvert ár er samþykkt á hinu háa Alþingi eitthvað sem kallast Ferðamálaáætlun. Hið síðasta árið 2004. Það plagg er með eindæmum. Þetta er rit með viðaukum og skýringum á meira en 100 blaðsíðum. En út úr þessu plaggi er ekki hægt að lesa neitt um það hvert beri að stefna, engin raunveruleg framtíðarsýn í þessum málum og ekkert til að fara eftir í því að byggja upp atvinnuveginn. Og í þessu plaggi er aðeins einu sinni minnst á hugtakið ferðamaður. Skjalið er samsuða úr alls konar klisjum og frösum sem hafa enga praktíska merkingu. Sennilega hafa þarna einhverjir snjallir fræðimenn fengið það verkefni að sjóða saman tóma steypu sem ekki gæti valdið ágreiningi.

En þarf einhverja stefnu í þessum málum? Er ekki best að láta atvinnuveg þróast eftir því sem tækifærin bjóðast og losna þannig við allar kvaðir sem stefnumörkun óneitanlega setur? Þetta sjónarmið er alveg gilt, en gallað. Ferðaþjónusta þarf að byggja á samspili svo margra aðila og svo margra þátta, að það gengur ekki að hafa engan ramma að fara eftir. Í því samhengi má benda á eftirtalin svið.

1. Umhverfismál. Náttúra landsins og menning eru helstu auðlindir ferðaþjónustunnar. Ef við misnotum náttúruna á einhvern hátt eða misbjóðum okkar menningararfi og okkar menningarlífi er hætt við að ferðaþjónustan, og þar með okkar efnahagslíf, skaðist varanlega.

Það er orðin alger nauðsyn að bregðast við varðandi umhverfismál, því segja má að það sé stunduð rányrkja í íslenskum ferðaiðnaði eins og hann er rekinn.

2. Nýting fjármagns. Ferðaþjónusta byggir á samspili fjölmargra atriða sem öll verða að vera til staðar. Það verður þess vegna að gæta þess að byggja upp þannig að allir þættir séu byggðir samhliða. Þetta á sérstaklega við um uppbyggingu ferðaþjónustu á landsbyggðinni. Og það er aðeins tryggt ef ferðamenn koma á svæðið og greiða þeim sem þar eru fyrir þjónustu. En til þess að ferðamenn komi, verður þrennt að vera til staðar skammlaust. Gisting og veitingasala, flutningakerfi og afþreying. Ef einn þessara þátta er ekki til staðar, eða hann er í döpru ástandi, er erfitt að fá ferðamenn til að heimsækja viðkomandi svæði að einhverju marki. Og þá nýtist fjármagnið illa.

3. Gjaldtaka af ferðamönnum til sameiginlegrar þjónustu. Á að taka gjald fyrir aðgang að ákveðnum svæðum? Á að taka fé til reksturs svæðanna af skattfé? Eða á að innheimta almennt gjald af ferðamönnum sem hér gista? Eða er einhver önnur leið heppilegust? Þessum spurningum þarf að svara.

4. Menntunarmál í ferðaþjónustu er nokkuð sem þarf að skoða. Eins og er, er stór hluti fagmenntunar í ferðaþjónustu greiddur að fullu af nemendum eða í vissum tilvikum þeirra vinnuveitendum. Aukið mikilvægi ferðaþjónustu hlýtur að kalla á námsframboð sem hentar.

5. Rannsóknir í ferðamálum. Þessi þáttur hefði e.t.v. átt að vera númer eitt í upptalningunni. Þetta er nauðsynlegur þáttur í uppbyggingu. En ef ekki er stefna til staðar, þá er bæði erfitt fyrir rannsóknarstofnanir að fá fjármagn og einnig er forgangsröðun í rannsóknum ákaflega erfið. Rannsóknir geta gefið grunn undir stefnumörkun.

Það eru ýmis teikn á lofti í ferðaþjónustunni. Atvinnugreinin hefur verið á fljúgandi uppleið á síðustu árum. Að hluta til vegna þess að gengi krónunnar er hagstætt ferðamönnum og að hluta til vegna mikillar auglýsingaherferðar. En lítið sem ekkert hefur verið gert til að bæta innviðina, tryggja góða þjónustu og koma í veg fyrir neikvæð áhrif ferðamannastraumsins. Ef stefnan er ekki klár, er hætt við að atvinnuvegurinn þróist í óæskilegar áttir. Og hrun gæti orðið í atvinnugreininni ef ekki er skipulega tekið á málum. Það er líka auðveldara að taka afstöðu til mála eins og uppbyggingar á Grímsstöðum á Fjöllum, óska um að reisa spilavíti og slík mál sem kerfið virðist ekki hafa burði til að skoða í samhengi við heildina. En fyrst og fremst verður að koma í veg fyrir stórslys, umhverfisleg og markaðsleg. Það verður að gera með sammæli um hvernig við viljum sjá ferðaþjónustuna í framtíðinni.

Það mun vera einhver hópur í gangi sem er að sjóða saman nýja ferðamálaáætlun. Vonandi tekst betur til en síðast, þannig að til verði einhver heildstæð stefna í íslenskri ferðaþjónustu. Ekki einhver merkingarlaus moðsuða.




Skoðun

Sjá meira


×