Skoðun

Hvar stöndum við?

Torfi Hjartarson skrifar
Tillögur úr hugmyndasamkeppni um byggingar og almannarými við Ingólfstorg og Víkurgarð hafa vakið sterk viðbrögð enda voru forsendur keppninnar gagnrýndar harðlega þegar þær voru fyrst lagðar fram. Í stað þess að leggja alla áherslu á almannarými og verndarsjónarmið var gengið mjög langt til móts við þarfir lóðarhafa á svæðinu. Sá hefur það helst á sinni stefnuskrá að byggja stórt hótel. Andstaða við byggingaráformin hafði þó þau áhrif að í keppninni var töluverð áhersla á verndarsjónarmiðin um gamla byggð, skapað var visst svigrúm til sveigjanleika í útfærslum og þátttakendur hvattir til að færa ekki gömul hús úr stað. Margir keppenda svöruðu því kalli með því að koma sem mestu af hótelstarfseminni fyrir í Landsímahúsi við Austurvöll ásamt yngri viðbyggingum og mögulegri nýbyggingu við Kirkjustræti gegnt inngangi að Alþingi. Sumar hugmyndir að þeirri nýbyggingu eru hógværari en í verðlaunatillögunni enda tekur dómnefnd sérstaklega fram að þann hluta hennar þurfi að útfæra betur. Ýmsir hafa líka bent á að vel megi komast af með miklu minna hótel og að önnur starfsemi færi betur í Landsímahúsi, til að mynda menningar- og tómstundastarf á vegum borgarinnar eða skrifstofur Alþingis á efri hæðum ásamt öflugri veitingastarfsemi á jarðhæð sem þá yrði laus við alla langferðabíla.

Í verðlaunatillögu eru gömlu húsin við Vallarstræti látin standa að frátöldum salnum í NASA en byggt of hátt á milli þeirra og þau látin hverfa á bak við fyrirferðarmikla nýbyggingu á Ingólfstorgi. Þar er lagt til að borgin komi fyrir menningarhúsi en eftir því var aldrei leitað. Tillagan felur því í sér þann góða kost fyrir borgina að leyfa gömlu húsunum hringinn í kringum Ingólfstorg að njóta sín um ókomna tíð og láta hugmyndir um byggingu húsa á torginu lönd og leið. Í því liggur í reynd helsti styrkur tillögunnar. Þó að einhverjir agnúist út í Ingólfstorg og margt megi þar bæta er engum blöðum um það að fletta að torgið er það langlíflegasta í borginni. Þar blómstrar og getur vaxið allra handa menning allan ársins hring.

Borgin hefur glímt við togstreitu um þetta svæði um áratuga skeið enda var lagt upp þversagnakennt skipulag í Kvosinni á níunda áratug síðustu aldar þrátt fyrir viðvaranir og mótmæli húsverndar- og félagshyggjufólks. Á þeim tíma hafði Alþingi ákveðið að rífa gömul hús við Kirkjustræti og í Kvosarskipulagi voru talin mörg fleiri hús sem ættu mögulega að víkja. Vallarstræti 4 (Hótel Vík) og Aðalstræti 7 (gula húsið, Brynjólfsbúð) eru bæði á þeim lista en þó er í skipulaginu sérstaklega tekið fram, takið eftir því, að æskilegast væri að varðveita þau. Húsin eru hluti af timburhúsaröðinni sem enn þann dag í dag rammar inn Ingólfstorg og styður nálæga byggð í Grjótaþorpi og við Grófartorg.

Frá því að þetta var hafa orðið mikil umskipti, allir styðja stefnu um borgarvernd, áhugi á húsvernd er almennur og fjölda gamalla húsa hefur verið sýndur sómi með vandaðri endurgerð og fallegum viðbyggingum til mikilla hagsbóta um allt land. Mörg hús, áður í hættu, hafa verið friðuð, þar á meðal framhús NASA við Austurvöll. Alþingi í samráði við borgaryfirvöld hvarf frá niðurrifi á sínum reit og nú mynda fjögur gömul hús við hlið Alþingis ómetanlega og heildstæða röð meðfram Kirkjustræti. Engum dettur lengur í hug að þau hús megi rífa. Þvert á móti sýnir þessi húsaröð hvernig standa má að málum. Þetta sjá auðvitað allir þegar á það er bent.

Samt er eins og kjörnir fulltrúar hafi misst sjónar á þessu við Ingólfstorg og fundist skipta meira máli að peningafólk hefur keypt sér lóðir og gömul hús á besta stað og verndarsvæði í borginni með ágóða í huga. Það verði að fá að koma vilja sínum fram, hjá því verði bara ekki komist. Að öðrum kosti bresti gróðavonir og borgin gæti þurft að borga bætur. Þetta varð útgangspunktur og þess vegna gengur hugmyndasamkeppnin ekki betur upp. Eins og Kristín Þorleifsdóttir dómnefndarmaður lýsir réttilega í sinni niðurstöðu tókst engri tillögu að sætta sjónarmið á viðunandi hátt og undir það hafa margir tekið.

Arkitektarnir lögðu sig alla fram og dómnefnd hefur lokið löngu og ströngu starfi en hótel-áformin og byggingarmagnið sem lagt var upp með eru enn til bullandi vandræða, ganga of nærri tónlistarsal, gömlum húsum og líflegasta torgi borgarinnar. Þá reynir á lóðarhafa, skipulagsráð og borgarstjórn að bæta úr því. Þessir aðilar eru reyndar ekki alveg einir um verkefnið því að almenningur í borginni og Alþingi láta sig málið varða. Meira en tólf þúsund Íslendingar hafa á skömmum tíma skrifað undir mótmæli við áform lóðarhafa og borgarinnar á slóðinni Ekkihotel.is. Látið er að því liggja að fólk hafi fengið rangar upplýsingar eða viti ekki nóg um málið en sá málflutningur stenst ekki skoðun.

Við þurfum sátt um gömlu húsin og lóðirnar við Vallarstræti með NASA-sal og öllu saman, það þarf að gera þau upp af fullum metnaði og byggja í skörðin á forsendum gömlu byggðarinnar. Höfum í huga að lóðarhafinn á enga heimtingu á sameiningu lítilla lóða sunnan við Ingólfstorg til að koma þar fyrir stóru húsi, lóðarhafinn á enga heimtingu á einsleitri starfsemi eða stórbyggingu við Vallarstræti, lóðarhafinn getur ekkert tilkall gert til Ingólfstorgs og lóðarhafinn getur ekki þegar til kastanna kemur rifið meira en aldargömul og merk hús sem löngu er ljóst að þarf að vernda. Líku máli gegnir um vinsælan tónleikasal, hálfrar aldar gamlan, í hjarta borgarinnar. Og ef hann vill þenja út Landsímahús á hæð og breidd varpar hann skugga á sólríkan Austurvöll og þrengir að Alþingi. Þessa þröngu stöðu tók hann sér sjálfur og hann þarf að vinna úr henni í sátt við borgarbúa og nágranna sína. Okkar er að standa með hagsmunum heildarinnar, ekki að tala niður almannarýmið, gera lítið úr skuggavarpi, mikla fyrir okkur bætur, gera mikið úr hæpnum málstað lóðarhafa eða koma í veg fyrir að gömul hús fái að njóta sín. Þetta mál þarf að leiða til farsælla lykta fyrir fólkið í borginni. Líka þó að það kunni að kosta okkur eitthvað. Það er löngu kominn tími til.




Skoðun

Sjá meira


×