Innlent

Barnabætur og fæðingarorlofsgreiðslur hækkaðar

Ríkisstjórnin hefur áform um að lengja fæðingarorlof og hækka barnabætur á fjárlögum næsta árs. Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra segir það hafa verið til umræðu í ríkisstjórn hvernig nýta eigi hugsanlegt svigrúm í ríkisfjármálum á næsta fjárlagaári.

„Það er þrennt sem við erum með augun á: barnabæturnar, fæðingarorlofið og vaxtabætur fyrir þá sem eru í verstri stöðu að því er varðar greiðsluvanda," segir Jóhanna. Hún segir samstöðu um það í ríkisstjórninni að barnafjölskyldur fái forgang þegar færi gefst. Hún bendir jafnframt á að stefnt sé að því að ná jöfnuði í ríkisfjármálum árið 2014. „Við höfum reynt að hlífa velferðarmálunum eins og kostur er í gegnum þessar þrengingar og náð mjög miklum árangri. Við sjáum fram á að það muni skýrast á næstunni hvort við getum gert eitthvað í barnabótum og fæðingarorlofi."

Barnabætur og fæðingarorlof hafa lækkað í kjölfar kreppunnar. Til marks um það höfðu hámarksgreiðslur Fæðingaorlofssjóðs lækkað um 235 þúsund krónur frá því í lok árs 2008 þar til í upphafi árs 2010 þegar greiðslurnar námu 300 þúsund krónum.

Guðbjartur Hannesson sagði í apríl á þessu ári að hann byggist við því að kynntar yrðu breytingar á fæðingarorlofinu samhliða fjárlagafrumvarpi í haust.

Spurð hvort formleg vinna sé hafin við þessar breytingar segir Jóhanna: „Jú jú, hún hefur verið í undirbúningi og það er farið að leggja línur í því sem ég hef nefnt. Ég geri ráð fyrir því að við sjáum þessu stað í fjárlagafrumvarpinu sem lagt verður fram í september."

„Þá yrðu settir auknir fjármunir í barnabætur og líka í hækkun á greiðslum í fæðingarorlofi. Ég er að vona að við getum stigið skref áfram í þessu máli."

Jóhanna segir ástæður þess að barnafjölskyldur fái forgang vera að þær eigi í mestum vandræðum. ?Mesti vandinn er hjá stórum barnafjölskyldum og það er frekar greiðsluvandi heldur en skuldavandi sem hrjáir þær."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×