Skoðun

Hvaða markmiði þjónaði samkeppnin um Ingólfstorg/Kvosina?

Gunnlaugur Stefán Baldursson skrifar
Meginmarkmið samkeppni um Ingólfstorg/Kvosina var samkvæmt keppnisforsendum m.a.

„að leggja áherslu á–gæði hins manngerða umhverfis“

„að bera virðingu fyrir –arfleifð, staðaranda og menningarlegu umhverfi“ –

„að frumhanna hótelbyggingu sem virðir sögulegt samhengi miðborgarinnar…“.

Sé niðurstaða samkeppninnar skoðuð, sér í lagi fyrstu verðlaun, mætti álíta að aðalmarkmiðið hafi verið að koma sem mestu byggingamagni fyrir á svæðinu.

Þar sem ýmsar tillögur gerðu ofanskráðum tilvitnunum viðunandi skil er erfitt að skilja valið í 1. verðlaun því að gallar tillögunnar og þversagnir eru augljósar:

1. Í umsögn dómnefndar segir að tillagan „sýni markvissa uppbyggingu án niðurrifs eða tilfærslu á gömlum húsum“. En það er til lítils þar sem stór nýbygging, sem fyllir svo til helming Ingólfstorgs, lokar alveg fyrir ásýnd húsanna frá torginu og að auki verður allt Vallarstræti í skugga.

2. Tillagan helmingar Ingólfstorg með nýbyggingu, sem ekki kemur á móts við það meginmarkmið „að bera virðingu fyrir staðaranda“.

3. Höfundar 1. verðlauna vísa til þess, að nýbyggingin á Ingólfstorgi sé „á grunni“ Hótels Íslands (Fréttablaðið 12.07.12). Fyrir u.þ.b. þrjátíu árum var gerð tillaga að verslunarmiðstöð á sama „grunni“, sem mjög var gagnrýnd, m.a. vegna þess að umgjörð Hótels Íslands á fyrri hluta 20. aldar var algjörlega ólík því umhverfi, sem var fyrir u.þ.b. þrjátíu árum. Þessi rök gilda nákvæmlega eins enn í dag.

4. Styrkur svæðisins er sjónræn tengsl og flæði á milli einstakra útirýma. Í stað þess að styrkja þessi tengsl eyðileggur verðlaunatillagan þau algjörlega.

Því leyfist að spyrja: Ef algjörlega er litið fram hjá ofangreindum tilvitnunum, hver voru markmið samkeppninnar?




Skoðun

Sjá meira


×