Skoðun

Bláskógabyggð, sorpflokkun og sveitasæla

Drífa Kristjánsdóttir skrifar
Við íbúar Bláskógabyggðar erum afar stolt af því að hafa tekið forystu meðal sveitarfélaga og hvatt til flokkunar á sorpi. Það gerðum við fyrir rúmum tveimur árum. Umhverfismál eru mikilvæg og við vildum sýna ábyrgð, flokka sorpið og minnka urðun. Í sorpi eru líka mikil verðmæti og því er mikilvægt að minnka urðun og auka endurnýtingu.

Breytingarnar fólust í því að settar voru flokkunartunnur hjá öllum íbúum og fyrirtækjum í Bláskógabyggð. Gjaldtakan hækkaði umtalsvert enda dýrt að láta sækja sorp á alla bæi og í íbúðarhúsum í þremur þéttbýlum. Ákveðið var að hlífa eigendum sumarhúsa við hækkunum og ekki settar reglur á þá um hvernig ætti að hirða sorp þeirra. Sumarhúsafélögum og eigendum sumarhúsa var kynnt að þau gætu samið beint við þjónustuaðilann, Gámaþjónustuna. Þannig gat hvert sumarhúsasvæði (og getur enn) ákveðið hvernig það vill láta sinna hirðingu sorpsins. Sum félög hafa fengið gáma til sín, önnur hafa ákveðið að hver og einn komi sínu sorpi á gámastöðvarnar. Í sumum hverfum er fólk mikið í húsum sínum en í öðrum er minni viðvera. Þannig henta mismunandi lausnir í sumarhúsahverfunum.

Langflestir eru afar ánægðir með núverandi fyrirkomulag, sorp hefur minnkað mikið og vitund fólks er að verða mjög mikil fyrir mikilvægi flokkunar sorps. Einhverjir eru þó enn óhressir. Þeir vilja ekki flokka sorpið og vilja bara halda öllu óbreyttu, henda í gáma sem næst sér og sleppa flokkuninni. Formaður Landssambands sumarhúsaeigenda, Sveinn Guðmundsson, er einn þeirra. Hann hefur staðið vörð um að engar breytingar megi eiga sér stað í sorpmálum Bláskógabyggðar og er einarður í að berjast gegn breytingunum. Hann hefur kært og fengið úrskurð en slær höfðinu við steininn og virðist ekki skilja úrskurðinn. Bláskógabyggð lagfærði það sem aflaga fór í breytingarferlinu og opnaði gámasvæðin fyrir heimilissorpi allan sólarhringinn. Fór þannig eftir úrskurðarnefndinni um „að sorpílát skuli vera þannig að hentugt sé að losa í þau á leið frá hverfinu.“

Sveinn ræðir daun og ólykt og þá velti ég því fyrir mér hvort hann þekki ekki til staðhátta. Á Þingvöllum er sól og sæla, gleði og góð lykt, líka í Laugardalnum og í Biskupstungum og einnig á hálendinu á Kili. Bláskógabyggð öll ilmar af yndislegum gróðri og góðu veðri.

Sorpflokkunin hefur orðið til þess að margir sumarhúsaeigendur og íbúar setja lífræna sorpið í moltukassa sem nýtist þeim seinna t.d. í matjurtagarða. Það er mjög jákvætt og lyktin góð. Ef lífrænt sorp er ekki í öðru sorpi þá er engin lykt. Þetta vita þeir sem eru umhverfissinnar og flokka sitt sorp.

Ég er oft mjög hissa á málflutningi Sveins formanns. Hann er oftar en ekki neikvæður og gegn sveitarfélögunum. Ég bendi honum á að vera frekar í samstarfi við sveitarfélögin og horfa á allar hliðar mála. Eigendur sumarhúsa eru oftast ánægðir með sína sumarhúsabyggð og vilja tengjast menningu og lífi samfélagsins. Það er erfitt ef fólk er neikvætt og sér bara neikvæðu hliðarnar á öllum málum. Látum jákvæðni verða leiðarljósið, ekki úrtölur og neikvæðni.




Skoðun

Sjá meira


×