Skoðun

Henning Mankell og nýlendur

Marjatta Ísberg skrifar
„Það var snemma morguns, mánuði eftir komuna frá Afríku. Á borðinu fyrir framan hann voru teikningar af húsinu sem hann hafði ákveðið að byggja við ströndina fyrir utan Quelimane í Mósambik. Sem aukagreiðslu fyrir samninginn á milli landanna hafði Ya Ru fengið ósnortið strandsvæði á góðu verði. Með tímanum hafði hann hugsað sér að byggja glæsilega ferðamannaaðstöðu fyrir vel stæða Kínverja sem í auknum mæli færu að ferðast um heiminn.“

Þessar setningar eru teknar úr bók Hennings Mankell sem í íslenskri þýðingu Þórdísar Gísladóttur heitir Kínverjinn (bls. 426). Þegar ég fékk bókina í hendur hélt ég að hún væri spennubók en svo reyndist vera aðeins að hluta. Í raun var hún pólítísk ádeila sem sveipuð var huliðshjálmi spennubókar. Enda er slík framsetning vænlegri til að ná til stærri lesendahóps en ef um hreinræktaðan áróður væri að ræða.

Mikill hluti textans fjallar um ásókn Kínverja í jarðnæði í Afríku og þá tilhneigingu heimamanna að láta freistast af stundargróða. Héraðshöfðingjar gleypa við gylliboðum kínverskra auðmanna og allt er látið líta út eins og Kínverjar séu velgjörðarmenn Afríkumanna.

Við lestur bókarinnar gat maður ekki komist hjá því að hugsa um mál Grímsstaða sem mikið hefur verið í fjölmiðlum hér. Hjá okkur eru það ekki héraðshöfðingjarnir sjálfir sem fá fjárhagslegan ávinning af fyrirhuguðum viðskiptum í eigin vasa, en einhvern veginn læðist að manni grunur um að þeir séu allt of auðtrúa.

Í bókinni segir einnig: „Fylgdu slóð peninganna, þá kemstu að sannleikanum.“ Í öllu þessu máli finnst mér einhvern veginn að íslenskir héraðshöfðingjar hafi stoppað til að tína klinkið sem hefur dottið úr vasa miljarðamæringa við stíginn í staðinn fyrir að rekja peningaslóðina alla leið.

Í bók Mankells er Hong, systir eins þeirra sem er í jarðarkaupum í Afríku, látin standa fyrir gömlu gildin. Hún spyr sjálfa sig: „Hvað er það sem ég veit ekki? Hvað liggur að baki þessu öllu [...] Ég held að við séum bara að feta leiðina sem heimsvaldasinnarnir hafa alltaf fetað. Nýlendurnar í þumalskrúfu, við hirðum gróðann.“ (bls. 420)

Viljum við verða nýlenda Kína, það er spurning sem einhverjir eru ef til vill að hugleiða þessa dagana, þeir sem ekki hafa blindast af dollaraskini. Hvað er það sem við hér á Íslandi vitum ekki? Hvað liggur að baki öllu þessu?




Skoðun

Sjá meira


×