Innlent

Grasfrjó og birkifrjó eru fólki erfiðust

Eftir því sem norðar er farið á landinu seinkar blómgun plantna. Sveiflur á magni frjókorna eru þær sömu, en eru tveimur vikum seinna á ferðinni á Akureyri en í Reykjavík.
Eftir því sem norðar er farið á landinu seinkar blómgun plantna. Sveiflur á magni frjókorna eru þær sömu, en eru tveimur vikum seinna á ferðinni á Akureyri en í Reykjavík.
Flestir sem eru með frjókornaofnæmi hafa ofnæmi fyrir gras- og birkifrjóum. Gott er að fylgjast með frjókornum annarra plantna enda geta þau einnig vakið ofnæmisviðbrögð þrátt fyrir að sjúklingurinn hafi ekki ofnæmi fyrir þeim.

Ótal tegundir af frjókornum eru í loftinu á sumrin, en langflestir hafa aðeins ofnæmi fyrir tveimur þeirra.

„Menn eru viðkvæmastir fyrir gras- og birkifrjóum. Þessi frjó valda einnig mestum einkennum,“ segir María I. Gunnbjörnsdóttir, yfirlæknir ofnæmisdeildar Landspítalans.

Misjafnt er hvenær þessi frjó ná hámarki í lofti. Mest er af birkifrjóunum í byrjun sumars en grasfrjóin ná hámarki í lok júlí.

„Við látum sjúklinga oft fá frjódagatal og bendum þeim á að fylgjast með frjótölum á vef Náttúrufræðistofnunar Íslands,“ segir María.

Út frá þessum tölum geta sjúklingar gert sér grein fyrir hvenær má búast við ofnæmiseinkennum og gert viðeigandi ráðstafanir.

Margir þjást líka af svokölluðu krossofnæmi og fá þá ofnæmisviðbrögð við fleiri frjókornum en þeim sem þeir eru með ofnæmi fyrir. Þess vegna getur verið skynsamlegt að fylgjast með fleiri frjótölum en þeim sem viðkomandi hefur ofnæmi fyrir.

María segir fólk gjarnt á að rugla kvefi saman við ofnæmi þar sem ofnæmiseinkennin líkist mjög kvefeinkennum. Fólk hnerri, fái nefstíflu og kláða í bæði augu og nef.

„Fólk með kvef getur kannski mætt í vinnu en hefur bara 70 til 80 prósent orku á við vanalega. Þannig líður manni líka þegar maður þjáist af ofnæmi.“

María segir best að fara í ofnæmispróf til að láta skera úr um hvort um ofnæmi sé að ræða. Hins vegar geta ýmsar vísbendingar sýnt hvort óþægindin stafi af ofnæmi eða kvefi.

„Ef fólk fær alltaf kvef á sama tíma á árinu og sérstaklega ef það gerist á mesta frjókornatímanum, er það sterk vísbending um að kvefið sé í raun ofnæmi. Einkum ef enginn annar er kvefaður í kringum viðkomandi.“

María segir auðvelt að stuðla að bættri líðan ofnæmissjúklinga.

„Regluleg lyfjameðferð er lykilatriði og það vita þeir sem eru með slæmt ofnæmi, þeir þola ekki annað. Andhistamíntöflur og sterapúst í nefið er mjög góð meðferð og dugar flestum.“

katrin@frettabladid.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×