Skoðun

Seðlabanki Evrópu er hlutafélag

Brynhildur Ingimarsdóttir skrifar
Seðlabanki Evrópu er hlutafélag og eru seðlabankar aðildarríkja Evrópusambandsins, fyrir hönd ríkja sinna, eigendur alls hlutafjár bankans. Evruríkin sautján eru eigendur 70% af heildarhlutafénu en aðildarríkin tíu sem ekki hafa tekið upp evru eiga samtals 30% hlut í bankanum. Hlutur aðildarríkjanna í heildarhlutafé Seðlabanka Evrópu ákvarðast út frá svokölluðum dreifingarlykli fyrir hlutafjáráskrift og er reiknaður út frá íbúafjölda og vergri landsframleiðslu hvers ríkis. Seðlabanki Evrópu endurmetur skiptingu heildarhlutafjárins á fimm ára fresti og í hvert skipti sem nýtt ríki gerist aðili að sambandinu. Stærstu hluthafar bankans eru seðlabankar Þýskalands, Bretlands, Frakklands og Ítalíu.

Í lok árs 2010 var skráð heildarhlutafé Seðlabanka Evrópu hækkað úr 5,76 milljörðum evra í 10,76 milljarða. Samþykkt var að seðlabankar aðildarríkjanna myndu veita Seðlabanka Evrópu aukahlutafjárframlag í þremur afborgunum. Fyrsta og önnur afborgun áttu sér stað í lok árs 2010 og 2011 en þriðja og síðasta afborgunin mun eiga sér stað í lok árs 2012. Innborgað heildarhlutafé Seðlabanka Evrópu nemur nú rúmlega 6,3 milljörðum evra.

Bankaráð Seðlabanka Evrópu, sem skipað er stjórnarmönnum í framkvæmdastjórn bankans og seðlabankastjórum evruríkjanna, heimilar útgáfu og ákveður magn evruseðla og -myntar í umferð. Seðlabanki Evrópu hefur því yfirumsjón með útgáfu evru og er seðlabönkum evruríkjanna óheimilt að prenta evruseðla eða slá evrumynt að eigin frumkvæði. Í reynd fer prentunin og myntsláttan þó fram í seðlabönkum evruríkjanna þar sem Seðlabanki Evrópu er ekki búinn þeim tækjum og tólum sem til þarf.

Seðlabankar evruríkjanna bera kostnaðinn af framleiðslunni í sínu heimalandi.




Skoðun

Sjá meira


×