Innlent

Listastarfsemin er í gíslingu skrifræðis

Hús gamla Héraðsskólans á Laugarvatni Búið er að gera upp húsið, sem var farið að láta á sjá eins og þessi mynd ber með sér, en það þarf víst að taka til í kerfinu svo það komist í gagnið.fréttablaðið/völundur
Hús gamla Héraðsskólans á Laugarvatni Búið er að gera upp húsið, sem var farið að láta á sjá eins og þessi mynd ber með sér, en það þarf víst að taka til í kerfinu svo það komist í gagnið.fréttablaðið/völundur
Hús Héraðsskólans á Laugarvatni stendur autt og málefni þess virðast í ólestri. Á meðan gæti svo farið að starfsemi Gullkistunnar verði á hrakhólum eftir ár. Sveitarstjóri vill líf í húsið en hið opinbera, sem á það, virðir hann ekki svars.

Svo gæti farið að Gullkistan, sem heldur úti gistiaðstöðu og aðsetri fyrir listamenn á Laugarvatni, verði á hrakhólum innan árs. Alda Sigurðardóttir, annar forkólfa Gullkistunnar, segir þetta undarlega upplifun því starfsemin hafi verið með blóma síðastliðin fjögur ár og fyrirtækið sé vel rekið og skuldlaust. Þar á ofan sé hús Héraðsskólans á Laugarvatni, sem ávallt hefur verið hinn ákjósanlegasti staður fyrir starfsemina, autt og ónotað um þessar mundir.

Nú hefur Gullkistan aðstöðu við bæinn í Eyvindartungu og í íbúðum byggingafélags námsmanna.

„Nú hefur okkur hins vegar verið sagt upp á bænum svo við höfum eitt ár þar til viðbótar en svo er framtíðin alls óráðin varðandi íbúðir byggingafélagsins,“ segir Alda.

„Við höfum fengið þrjár umsóknir fyrir sumarið 2014 sem við höfum bara ekki getað svarað vegna þessarar óvissu.“

Hún segir að reynt hafi verið að fá aðstöðu í hinu sögufræga húsi Héraðsskólans á Laugarvatni sem stendur nú autt en málefni þess virðast í miklum ólestri. Byggingin er í eigu ríkisjóðs.

„Við höfum rætt við menntamálaráðherra sem hefur skilning á málinu en það hefur samt ekkert þokast áfram,“ segir Alda. „Hugmyndin hjá Jónasi frá Hriflu, sem lét reisa húsið, var alltaf að hafa þarna skóla á veturna og síðan hótel á sumrin þar sem listamenn fengju að dvelja enda var Halldór Laxness þar mikið, Jón Leifs og aðrir merkir menn. En síðan urðum við Íslendingar neyslubrjálaðir í stríðinu og allar hugsjónir gleymdust og enn í dag virðumst við ekki ætla að vakna til vitundar. Hriflu-Jónas er örugglega búinn að margsnúa sér í gröfinni,“ segir Alda.

Valtýr Valtýsson, sveitarstjóri Bláskógarbyggðar, segir það einlæga ósk sveitarfélagsins að líf færist í húsið. „Við höfum marg-ítrekað það við bæði menntamálaráðuneytið og Fasteignir ríkissjóðs en við fáum bara engin svör,“ segir hann.

Alda segir að Gullkistunni hafi verið boðið aðsetur á öðrum stöðum á landinu. „Það eru margir gáttaðir á þrjóskunni í okkur að vilja halda okkur í húsnæðisóreiðunni hér á Laugarvatni á meðan okkur standa opnar dyr annars staðar, en sagan og viss átthagabönd halda okkur hérna.“

Í ár tekur Gullkistan á móti hundraðasta gesti sínum en nú eru átta listamenn í kistunni. Hvorki bárust svör frá menntamálaráðherra né ráðuneytinu þegar Fréttablaðið óskaði eftir þeim í gær. jse@frettabladid.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×