Skoðun

Öruggari leiðir á netinu

Jón Kristinn Ragnarsson skrifar
Öllum þeim sem nota tölvur ættu að vera ljósar hætturnar sem geta fylgt venjulegri tölvunotkun. Þá ætti öllum líka að vera orðið ljóst að það er nokkurn veginn sama á hvaða stýrikerfi er keyrt, Windows, Apple, eða hvað sem er, það eru alltaf til einhverjir vírusar sem eru hannaðir til að gera kerfinu skaða. Enginn er lengur algerlega óhultur fyrir þeirri ógn. Þrátt fyrir þessa vitneskju er tölvusmitum ekki að fækka, heldur virðist þeim þvert á móti vera að fjölga. Nýlega komu fram fréttir sem sögðu að 20% af íslenskum tölvum væru hluti af tölvuher sýktra tölva. Ég er þess fullviss að sú tala sé enn hærri. Hvernig má það vera að á sama tíma og menn eru vel upplýstir um möguleg vírussmit þá er tölvusmitum að fjölga?

Getur verið að fólk hafi hreinlega gefist upp? Fallist hendur yfir þessu verkefni en samkvæmt mörgum fréttamiðlum og sérfræðingum virðist vera óvinnandi vegur að verja tölvuna sína? Hugsanlega, enda hafa margir söluaðilar gripið til þess ráðs að reyna að hræða fólk til að kaupa vörur þeirra í þeirri von að verjast smiti. Þá er líka reynt að selja einstaklingum lausnir sem hannaðar eru fyrir fyrirtæki og stofnanir, og eru allt of viðamiklar fyrir hefðbundinn tölvunotanda. Smátt, en mikilvægt verk, er gert allt of stórt og kostnaðarsamt. Lausnir miðaðar að einstaklingum henta ekki fyrirtækjum og öfugt.

Lengi gátum við verið örugg vegna þess að svindlpóstar sem reyndu að smita tölvur okkar voru á erlendum tungumálum eða í besta falli á illa þýddri íslensku. Þetta mun breytast þar sem þýðingarvélar eru sífellt að verða betri en þess er heldur ekki langt að bíða að íslenskir aðilar munu taka höndum saman við erlenda aðila til að standa að þýðingum á erlendum svindlpóstum. Þá duga ekki lengur hinar einfaldari varnir s.s. eins og að taka eingöngu eftir undarlegu orðalagi tölvupóstsins.

Nú til dags eru margir samfélagsmiðlar að bjóða upp á alls kyns leiki, og það er með þá eins og annað, að óprúttnir tölvuþrjótar fara þangað sem fólkið er, og þeir herja á þá sem geta verið auðveldar bráðir. Krakkar sem eru löngum stundum ein í tölvunum geta auðveldlega opnað leiðir fyrir alls kyns óværu inn í tölvurnar án þess að gera sér grein fyrir því. Foreldrar og umráðamenn þurfa að gera sér grein fyrir að það þarf að vernda þennan þátt eins og aðra. Það er ekki hægt að skýla sér á bak við að foreldrar skilji ekki hvað barnið er að gera í tölvunni. Á meðan barnið getur ekki tekið ábyrgð á eigin gjörðum þurfa foreldrar að gera það.

En hvað er það sem getur komið fyrir tölvu sem smitast af óværu eða vírus? Mikilvæg og verðmæt gögn, til dæmis ljósmyndir, geta tapast, fjármunum getur verið stolið, tölvan notuð til að framkvæma tölvuárás á ótengda aðila, tölvan notuð til að hýsa alls kyns óþverra og jafnvel mögulegt að komast í tölvukerfi vinnunnar ef heimatengingar eru til staðar. Allt eru þetta alvarlegir hlutir sem skipta máli og vert er að reyna að koma í veg fyrir.

Hvernig getur fólk aukið eigið öryggi á netinu? Þegar fólk hefur áttað sig á að það er nauðsynlegt að fara varlega er viss þankagangur sem getur hjálpað til. Því hefur verið haldið fram að það sem virðist vera of gott til að vera satt sé það alla jafnan, og það er gott að hafa það í huga. Þá er það einnig þannig að ef einhver gengur mjög langt í að reyna að selja þér eitthvað er það hugsanlega vafasamt, en þá er hægt að kynna sér málin, til dæmis með einfaldri Google-leit. Kannski kemur í ljós að um einhvers konar svindll er að ræða. Þegar kemur að hugbúnaði er nauðsynlegt að vera með uppfærða vírusvörn og eldvegg fyrir einstaklingstölvur.

Þegar reynt er að fá fólk til að gera eitthvað sem það ætti ekki að gera er reynt að höfða til grunnkennda þess, þar á meðal eru græðgi og forvitni. Ef þér finnst sem fast sé togað í þessar kenndir þínar er hugsanlega rétt að staldra við, draga djúpt andann og velta fyrir þér hvort hugsanlega sé verið að reyna að blekkja þig. Ef sá grunur er sterkur er best að bakka aftur inn á hinn öruggari stíg.




Skoðun

Sjá meira


×