Viðskipti innlent

Marel hefur vaxið 5.600-falt frá 1983

Frá lítilli tölvuvog spratt alþjóðlegt hátæknifyrirtæki.
fréttablaðið/stefán
Frá lítilli tölvuvog spratt alþjóðlegt hátæknifyrirtæki. fréttablaðið/stefán
Hátæknifyrirtækið Marel fagnaði því í gær að tuttugu ár eru liðin síðan hlutabréf fyrirtækisins voru skráð á hlutabréfamarkað.

Árið 1983, við formlega stofnun Marels, voru tekjurnar 20 milljónir króna. Árið 2011 voru tekjurnar 105 milljarðar króna og Marel er nú stærsta skráða félagið á Nasdaq OMX Iceland miðað við markaðsvirði.

Hluthafar Marels eru í dag um 2.200 talsins en þeir voru 242 í lok árs 1992 eða sama ár og félagið var skráð á markað.

Sé litið til veltu fyrirtækisins á þessum árum sést að Marel hefur vaxið meira en 5.600-falt til þessa dags. Það jafngildir 35 prósenta vexti á ári, talið í íslenskum krónum.

Hjá Marel starfa nú rúmlega fjögur þúsund manns um allan heim, þar af um 480 á Íslandi. Marel rekur framleiðslueiningar á sextán stöðum víðs vegar um heiminn og þjónustu- og söluskrifstofur á þrjátíu stöðum auk þess að hafa um 100 dreifingaraðila á sínum snærum.

Marel á rætur sínar að rekja til rannsóknarverkefnis í Háskóla Íslands þar sem þróuð var tölvuvog fyrir íslenskan fiskiðnað. Félagið framleiðir nú hátæknibúnað fyrir marga af stærstu matvælaframleiðendum heims í kjúklinga-, fisk- og kjötiðnaði.

- shá






Fleiri fréttir

Sjá meira


×