Skoðun

Sátt um auðlindastefnu

Arnar Guðmundsson skrifar
Allt frá skýrslu Auðlindanefndar árið 2000 má sjá sömu grundvallaratriðin í skýrslum og stefnumótun um auðlindamál. Verkefni Auðlindastefnunefndar er að draga þessi atriði saman og byggja á þeim tillögur um umsýslu auðlinda.

Búið er að byggja upp rannsóknir og ráðgjöf vegna ákvarðana um verndun og nýtingu auk eftirlits. En þriðju stoð heildstæðrar auðlindastefnu vantar enn; það er hvernig handhafar sérleyfa eru valdir, til hve langs tíma leyfin gilda og hvernig mögulegum umframarði, sem stafar af verðmæti sameiginlegra auðlinda, er skipt milli sérleyfishafa og þjóðarinnar sem eiganda eða umsjónaraðila.

Rauði þráðurinn í auðlindavinnu síðustu ára er að sérleyfum til nýtingar auðlinda verði aðeins úthlutað tímabundið, gegn gjaldi og með gagnsæjum hætti á grundvelli jafnræðissjónarmiða. Líklegt er að um þetta ríki sátt enda grunnurinn að t.d. löggjöf um leit og vinnslu olíu eða jarðgass innan íslenskrar lögsögu. Þar er einnig lagt upp með að auðlindarentunni, eða umframarðinum sem verðmæti sjálfrar auðlindarinnar skapar, sé skipt milli sérleyfishafa og þjóðarinnar.

Eða hvernig svara stjórnmálaflokkar annars þeirri spurningu hver sé raunverulegur eigandi olíu sem finnst innan íslenskrar lögsögu?

Þegar við höfum sammælst um grundvallaratriðin er auðveldara að útfæra stefnuna fyrir einstakar auðlindir þar sem tekið er tillit til mismunandi eðlis þeirra. Leiðin til sátta í auðlindamálum er annars vegar skýrar og gagnsæjar grundvallarreglur, að þjóðin njóti sanngjarns hluta umframarðsins af sínum verðmætustu auðlindum og hann sé sýnilegur og hins vegar að þær atvinnugreinar sem byggja á auðlindanýtingu búi við sem eðlilegust rekstrarskilyrði þannig að auðlindarentan verði hámörkuð öllum til hagsældar.




Skoðun

Skoðun

Stöðvum hel­víti á jörðu

Birna Þórarinsdóttir,Bjarni Gíslason,Gísli Rafn Ólafsson,Sigríður Schram,Stella Samúelsdóttir,Tótla I. Sæmundsdóttir skrifar

Sjá meira


×