Skoðun

Eiga konur ekki að kæra?

Steinunn Valdís Óskarsdóttir skrifar
Verðleikasamfélagið er andstæða spillingarsamfélagsins. Í verðleikasamfélaginu fær fólk að njóta menntunar sinnar, reynslu og færni án tillits til kyns, uppruna, stöðu, kynhneigðar eða stjórnmálaskoðana. Virðing við lög og reglur eru líka grundvöllur þess samfélags sem vill kenna sig við verðleika. Í spillingarsamfélaginu er þessu öllu snúið á haus.

Anna Kristín Ólafsdóttir stjórnsýslufræðingur sótti um stöðu skrifstofustjóra í forsætisráðuneytinu en fékk ekki. Hún kærði þá ráðningu til kærunefndar jafnréttismála. Kærunefndin komst að þeirri niðurstöðu að jafnréttislög hefðu verið brotin. Héraðsdómur staðfesti bindandi úrskurð kærunefndarinnar og dæmdi forsætisráðuneytið í kjölfarið til að greiða Önnu Kristínu miskabætur vegna meiðandi yfirlýsingar í kjölfar úrskurðarins og allan sakarkostnað.

Í kjölfar úrskurðarins og dómsins tóku ýmsir til máls og reyndu að verja ákvörðun ráðuneytisins með vísan í það að fagleg ráðningarnefnd hafi raðað kæranda í fimmta sæti í hæfnisröð. Flest skynsamt og sæmilega læst fólk undrast hins vegar þá uppröðun í ljósi staðreyndanna um hæfi umsækjenda. Það hlýtur til dæmis að vekja áleitnar spurningar að kærandi hafi þar fengið einkunnina 0, núll, fyrir færni í ensku. Hér er um að ræða umsækjanda sem starfaði um árabil fyrir bandarísk stjórnvöld og síðar fyrir Ríkisendurskoðun í Wisconsin. Umsækjanda sem lauk meistaraprófi í opinberri stjórnsýslu frá bandarískum háskóla. Ef slík reynsla er einskis metin er auðvitað auðvelt að handraða umsækjendum í hvaða sæti sem verða vill. Enda taldi kærunefnd jafnréttismála þessa röðun ekki standast skoðun.

Það er ekki létt verk að höfða mál gegn stjórnvöldum. Að stíga fram og krefjast réttar síns gagnvart forsætisráðherra er ekki eitthvað sem ein kona gerir að gamni sínu. Það er stórmál sem kostar kjark og úthald, en er gert af réttlætiskennd. Nú hafa bæði fjármálaráðherra og forsætisráðherra skrifað greinar í blöðin til að verja ráðningu karlsins. Það er mikið í lagt gegn einni konu.

Vald einstakra ráðherra er mikið í ríkisstjórn sem ekki er fjölskipað stjórnvald. Ekki síst fjármálaráðherra. Hann heldur á samningsumboði ríkisins við alla opinbera starfsmenn á Íslandi. Það er umhugsunarefni að fyrsta konan í embætti fjármálaráðherra á Íslandi skuli tjá sig opinberlega með þeim hætti sem raun ber vitni. Eiga konur ekki að sækja rétt sinn þegar á þeim er brotið? Á að trúa því að fjármálaráðherra vilji letja konur til þess að fara kæruleiðina þegar jafnréttið er annars vegar?

Hefði forsætisráðuneytið brugðist við niðurstöðu kærunefndar jafnréttismála af yfirvegun og sanngirni hefði Anna Kristín aldrei neyðst til sækja rétt sinn fyrir dómstólum. Dómgreindarbrestur og yfirlýsingagleði ráðuneytisins hefur hins vegar bakað því vandræði sem ekki sér fyrir endann á. Það ber stjórnsýslu ráðuneytisins dapurlegt vitni.

Þetta mál snýst ekki um persónur þeirra sem fara með stjórnvaldið hverju sinni. Það snýst um að tvisvar hafa þar til bærir aðilar komist að þeirri niðurstöðu að stjórnvald hafi brotið á einstaklingi. Stjórnvaldinu ber að virða þá úrskurði og gera tafarlaust sannfærandi ráðstafanir til að slíkt endurtaki sig ekki. Það að hlaupa samstundis í persónulega vörn og reyna að skaða trúverðugleika þeirrar sem brotið var á getur tæplega talist liður í því.

Ráðherrum eru falin mikil völd. Með þau þarf að fara af varfærni og gæta meðalhófs í öllum gjörðum, annars er hætt við misbeitingu eins og dæmin sanna. Það á við um alla ráðherra án tillits til þess úr hvaða stjórnmálaflokki þeir koma. Og þá kröfu verður að vera hægt að gera til ráðherra í ríkisstjórn Íslands að þeir hvort tveggja skilji og virði jafnréttislöggjöfina.




Skoðun

Sjá meira


×