Erlent

Tugþúsundir mótmæltu Pútín

Mótmælt í Moskvu Tugþúsundir söfnuðust saman í miðborg Moskvu í gær til að mótmæla.
Mótmælt í Moskvu Tugþúsundir söfnuðust saman í miðborg Moskvu í gær til að mótmæla. Fréttablaðið/AP
Tugir þúsunda mótmælenda komu saman í Moskvu í gær til að mótmæla Vladimír Pútín Rússlandsforseta. Daginn áður hafði lögreglan gert húsleit hjá tíu leiðtogum stjórnarandstöðunnar og þeim var gert að mæta til yfirheyrslu á sama tíma og mótmælin í gær voru áformuð.

Mótmælin í gær voru þau fyrstu gegn Pútín síðan hann var vígður í forsetaembættið í maí. Mótmælagöngur voru haldnar í vetur og voru þær umbornar af stjórnvöldum. Nú hefur Pútín hins vegar tekið mun harðari afstöðu gegn slíkum mótmælum og skrifaði til að mynda undir lög í síðustu viku sem leggja mjög háar sektir á þá sem mótmæla án leyfis. Sektirnar eru nú 150 sinnum hærri en áður og jafnast nánast á við meðalárslaun í Rússlandi.

Stjórnarandstæðingar segja að um 120 þúsund manns hafi komið saman í Moskvu í gær en lögregla sagði það hafa verið 20 þúsund manns. Leiðtogar og framámenn í stjórnarandstöðunni mættu til yfirheyrslu hjá lögreglunni klukkustund áður en mótmælin hófust en nokkrir hunsuðu yfirheyrslurnar þar til mótmælunum var lokið. - þeb




Fleiri fréttir

Sjá meira


×