Erlent

Telur nauðsynlegt að framselja meiri völd

David Cameron, forsætisráðherra Bretlands, og Angela Merkel Þýskalandskanslari.
David Cameron, forsætisráðherra Bretlands, og Angela Merkel Þýskalandskanslari. fréttablaðið/AP
Spánverjum tókst að selja ríkisskuldabréf fyrir 2,1 milljarð evra í gær, aðeins fáeinum dögum eftir að fjárhagsvandræði spænskra banka juku enn á óvissuna á evrusvæðinu.

Spænskir bankar hafa ekki lengur aðgang að lánsfé frá öðrum evrópskum bönkum og fjárfestum, en þurfa tugi milljarða evra í fjárhagsaðstoð á næstunni. Einungis fimm milljarðar eru hins vegar eftir í neyðarsjóði spænska ríkisins, sem stofnaður var árið 2009 og ætlaður til þess að bjarga bönkum úr bráðavanda.

David Cameron, forsætisráðherra Bretlands, segir nauðsynlegt að evruríkin hraði viðbrögðum sínum til þess að eyða markaðsóvissu.

Angela Merkel Þýskalandskanslari sagði hins vegar ómögulegt að lagfæra með hraði þann fjárhagsvanda, sem safnast hefur upp síðan evran hóf göngu sína fyrir tíu árum.

„Við þurfum ekki bara gjaldmiðilsbandalag. Við þurfum líka svokallað fjárlagabandalag, sameiginlega stefnu á fleiri sviðum fjárlagagerðar. Og við þurfum fyrst og fremst stjórnmálabandalag,“ sagði Merkel að loknum fundi með Cameron í gær. „Það þýðir að við þurfum, skref fyrir skref eftir því sem hlutirnir þróast, að framselja völd til Evrópu líka.“- gb




Fleiri fréttir

Sjá meira


×