Erlent

Dvergar ósáttir við nýja mynd um Mjallhvíti

Framleiðendur kvikmyndarinnar Mjallhvítar og veiðimannsins sæta nú ámæli vestanhafs fyrir að hafa sniðgengið dverga þegar leikarar voru valdir í myndina og ráðið í staðinn fólk í fullri stærð í hlutverk dverganna sjö.

Ónafngreindur fulltrúi samtaka dvergvaxinna Bandaríkjamanna segir í samtali við vefmiðilinn TMZ að skemmtanageirinn þar ytra ætti að gera sér far um að ráða dverga í hvers kyns störf.

„Bæði ætti auðvitað að velja dvergvaxið fólk í hlutverk sem voru sérstaklega skrifuð með það í huga að dvergvaxið fólk færi með þau, og eins önnur hlutverk sem almennt henta lágvöxnu fólki," segir hann.

Dvergarnir í nýju Mjallhvítarmyndinni, sem nú er til sýninga í íslenskum kvikmyndahúsum, eru leiknir af fullvöxnu fólki og það ýmist stytt á alla kanta með aðstoð tölvutækni eða andlit þess færð á líkama raunverulegra dverga.

Í meðfylgjandi myndskeiði má sjá umfjöllun þáttarins Sjáðu um myndina. Einnig er hægt að sjá atriði með dvergunum á kvikmyndasíðunni IMDb.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×