Erlent

Rússar taka undir ásakanir

Börn í Sýrlandi halda á lofti teiknimynd af Assad forseta, sem sýndur er baða sig í bláum hjálmi friðargæsluliða meðan Kofi Annan hellir blóði út í baðið.nordicphotos/AFP
Börn í Sýrlandi halda á lofti teiknimynd af Assad forseta, sem sýndur er baða sig í bláum hjálmi friðargæsluliða meðan Kofi Annan hellir blóði út í baðið.nordicphotos/AFP
Báðir aðilar hafa greinilega átt hlut að dauða saklausra manna, þar á meðal nokkurra tuga kvenna og barna, segir Sergei Lavrov, utanríkisráðherra Rússlands, um fjöldamorðin í Houla í Sýrlandi á föstudag.

Rússar stóðu á sunnudag að yfirlýsingu Öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna, þar sem manndrápin í Houla eru harðlega fordæmd og fullyrt að árásir stjórnarhersins á íbúðahverfi hafi átt hlut að máli.

Þetta er í fyrsta sinn sem Rússar hafa tekið undir ásakanir á hendur stjórnarher Basher al Assads forseta, og Lavrov utanríkisráðherra ítrekaði þær ásakanir í gær.

Hann tók þó jafnframt skýrt fram að uppreisnarmenn ættu einnig hlut að blóðbaðinu í Houla. ?Þetta svæði er á valdi uppreisnarmanna, en það er einnig umkringt af stjórnarhernum,? sagði Lavrov í Bretlandi í gær, þar sem hann átti fund með William Hague utanríkisráðherra.

Hann sagði Rússa ekki styðja Sýrlandsstjórn sérstaklega í þessari deilu, heldur styðji Rússar fyrst og fremst friðaráætlun Sameinuðu þjóðanna. Hann hvatti jafnt stjórnarherinn sem uppreisnarmenn til að virða vopnahlé, eins og þeir hafa sjálfir heitið að gera.

?Það er rétt, eins og Lavrov hefur gert, að skora á alla að leggja niður vopn,? sagði Hague, ?og við erum ekki að halda því fram að allt ofbeldið í Sýrlandi sé á ábyrgð stjórnar Assads, þótt hún beri mestu ábyrgðina á ofbeldinu?.

Sameinuðu þjóðirnar telja að manndrápin í Houla hafi kostað að minnsta kosti 108 manns lífið, þar af 49 börn og tugi kvenna.

Kínverjar, sem rétt eins og Rússar hafa ekki tekið undir ásakanir á hendur stjórn Assads, fordæmdu einnig í gær drápin í Houla á föstudag og lýstu yfir stuðningi við friðaráætlun Sameinuðu þjóðarinnar, en gáfu ekkert í skyn um að afstaða þeirra til stjórnar Assads hafi breyst.

Kofi Annan, erindreki Sameinuðu þjóðanna í Sýrlandi, skoraði í gær á alla Sýrlendinga, ?hvern einasta einstakling sem vopnaður er byssu,? að leggja niður vopn. Þetta sagði Annan þegar hann kom til Sýrlands í gær til viðræðna við Basher al Assad forseta og aðra háttsetta ráðamenn.

Það er Assad sem fékk það verkefni að fylgja friðaráætlun Sameinuðu þjóðanna eftir en hvorki stjórnarherinn né uppreisnarmenn virðast hafa sýnt minnstu viðleitni til að standa við loforð um að leggja niður vopn.

gudsteinn@frettabladid.is



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×