Erlent

Andstæður mætast í seinni umferðinni

Talning atkvæða var langt komin í gær eftir forsetakosningarnar, sem haldnar voru á miðvikudag og fimmtudag.
Talning atkvæða var langt komin í gær eftir forsetakosningarnar, sem haldnar voru á miðvikudag og fimmtudag. nordicphotos/AFP
Mohammed Morsi, forsetaefni Bræðralags múslima, hafði í gær tryggt sér flest atkvæði í fyrri umferð forsetakosninganna í Egyptalandi. Hann verður því í kjöri í seinni umferð forsetakosninganna, sem haldin verður helgina 16. og 17. júní.

Síðdegis í gær var búið að telja mikinn meirihluta atkvæða, en þó var ekki orðið endanlega ljóst hvort Ahmed Shafik eða Hamdeen Sabahi yrði í öðru sæti. Í seinni umferðinni verður kosið á milli þeirra tveggja frambjóðenda, sem flest atkvæði fengu í fyrri umferðinni.

Shafik virtist þó ætla að hafa vinninginn, en hann er fulltrúi gömlu valdastéttarinnar. Hann var síðasti forsætisráðherra Hosni Mubaraks forseta, tók við embættinu nokkrum vikum áður en Mubarak hrökklaðist frá völdum snemma á síðasta ári og sat þangað til bráðabirgðastjórn hersins tók við.

Sabahi er hins vegar vinstri maður, veraldlega sinnaður og þótti lengi vel eiga litla möguleika á sigri.

Bræðralag múslima hefur boðað það að íslömskum lögum verði komið á í landinu. Þetta óttast hófsamari múslimir ekki síður en veraldlega sinnaðir Egyptar, og svo kristni minnihlutinn í landinu.

Bræðralag múslima eru voldug samtök íslamista, sem upphaflega voru stofnuð í Egyptalandi árið 1928 en eru nú fjölþjóðleg samtök með öfluga hreyfingu í flestum múslimaríkjum.

Þau hafa staðið fyrir hryðjuverkum og voru lengi vel bönnuð í Egyptalandi, en nutu engu að síður mikilla vinsælda, ekki síst vegna linnulausrar baráttu þeirra fyrir réttindum og velferð múslima.

Morsi nýtur því verulegs fylgis meðal heittrúaðra múslima en á sér að sama skapi marga andstæðinga. Sömu sögu er að segja af Shafik, sem vissulega hefur tekist að afla sér furðu mikils fylgis en á sér ekki síður harða andstæðinga, ekki síst meðal þeirra sem börðust hvað harðast gegn stjórn Mubaraks á sínum tíma.- gb




Fleiri fréttir

Sjá meira


×