Erlent

Langar biðraðir við kjörstaði

Í biðröðunum var tækifærið víða notað til að ræða pólitík fram á síðustu stundu.
Í biðröðunum var tækifærið víða notað til að ræða pólitík fram á síðustu stundu. nordicphotos/AFP
„Byltingin hefur breyst mikið. Bæði til hins betra og til hins verra,“ segir Wael Ramadan, fertugur Egypti sem starfar hjá símafyrirtæki og stóð í gær í biðröð eftir því að fá að greiða atkvæði á kjörstað í Kaíró.

„Það góða er að allt er þetta frelsi. Við erum hér og látum okkur hafa vesenið við að standa í biðröð til að kjósa forseta. Atkvæði mitt skiptir máli,“ sagði Ramadan og skaut föstum skotum að öðrum manni í biðröðinni: „Þú getur ekki skipað mér að kjósa einn mann og sagt að annars sé ég syndari.“

„Það sögðum við aldrei,“ svaraði hinn, en Ramadan hrópaði á móti: „Jú, víst gerðuð þið það.“

Þrettán frambjóðendur eru í kjöri og kosningarnar, sem hófust í gær, halda áfram í dag. Fái enginn þeirra hreinan meirihluta verður efnt til seinni umferðar kosninganna í júní, þar sem kosið verður á milli þeirra tveggja sem flest atkvæðin fá.

Þetta eru fyrstu forsetakosningarnar í Egyptalandi frá því Hosni Mubarak forseta var steypt af stóli fyrir rúmu ári og þær fyrstu sem talist geta frjálsar því í reynd höfðu fulltrúar hersins þá stjórnað landinu í nærri sex áratugi.

Í kosningunum eru það fulltrúar bæði strangtrúaðra múslima og gömlu valdaklíkunnar sem takast á við lýðræðislegri öfl umbótasinna.- gb




Fleiri fréttir

Sjá meira


×