Erlent

Ræddu útgáfu evruskuldabréfa í Brussel

Francois Hollande
Francois Hollande
Leiðtogar Evrópusambandsríkjanna hittust á fundi í Brussel í gærkvöldi og ræddu fjárhagsvandræði svæðisins. Meðal annars var rætt um mögulega útgáfu svonefndra evruskuldabréfa.

Francois Hollande, hinn nýkjörni forseti Frakklands, fékk þarna tækifæri til að kynna hugmyndir sínar um að Evrópusambandið beiti sér af krafti til þess að koma af stað hagvexti í stað þess að einblína eingöngu á sparnað og aðhald í ríkisrekstri.

Á leiðtogafundi G8-ríkjanna, sem haldinn var í Bandaríkjunum um helgina, fengu hugmyndir hans góðan hljómgrunn. Jafnvel Angela Merkel, Þýskalandskanslari, var komin á þá skoðun að hagvöxtur skipti ekki síður máli en aðhaldið.

Ágreiningur var hins vegar um það hvaða aðferðum ætti að beita til þess að koma hagvexti af stað í kjölfar kreppunnar sem hrjáð hefur flest evruríkin undanfarin misseri.

Þjóðverjar hafa haldið fast í andstöðu sína við útgáfu evruskuldabréfa, sem evruríkin sautján myndu gefa sameiginlega út og myndu nýtast sem lánsfé til framkvæmda. Með útgáfu slíkra skuldabréfa myndi hins vegar skuldastaða Þýskalands, rétt eins og hinna evruríkjanna, versna nokkuð, og slíkt telur Merkel sér engan veginn stætt á að samþykkja.

Fyrir fundinn í gær hitti Hollande forsætisráðherra Spánar, Mariano Rajoy, sem kallaði sérstaklega eftir aðstoð frá Evrópusambandinu við að fá lánsvexti lækkaða.

Spánn færi að öllum líkindum, ásamt Ítalíu, einna verst út úr því ef Grikkland kemst í greiðsluþrot og tæki jafnvel ákvörðun um að yfirgefa evrusvæðið. Leiðtogar evruríkjanna hafa hins vegar, rétt eins og leiðtogar G8-ríkjanna gerðu á fundi sínum um helgina, lagt áherslu á að Grikkir haldi evrunni. - gb, - þeb




Fleiri fréttir

Sjá meira


×