Skoðun

Fiskveiðifrumvörpin eru andstæð þjóðarhagsmunum

Einar Kristinn Guðfinnsson skrifar
Svo ótrúlegt sem það er, þá er það engu að síður staðreynd, að verði frumvörp ríkisstjórnarinnar um breytingu á fiskveiðistjórnun að lögum, mun það hafa í för með sér stórfelld gjaldþrot og töp fjármálafyrirtækja upp á marga milljarðatugi. Það hlýtur að teljast einsdæmi að ríkisstjórn leggi fram tillögur að breytingum á starfsumhverfi helstu atvinnugreinar eins lands, sem leiðir til stórfelldra gjaldþrota.

Ábyrg stjórnvöld í lýðræðisríkjum líta fremur á það sem hlutverk sitt að skapa atvinnulífinu góð rekstrarskilyrði. Á Íslandi höfum við stjórnvöld sem leggja fram tillögur sem leiða til hins gagnstæða og valda fullkomnu uppnámi í grundvallaratvinnuvegi þjóðarinnar. Verði þessi frumvörp að lögum kalla þau fram gjaldþrot í stórum stíl, sem ella yrðu ekki. Er það ekki grafalvarlegt mál?

Það er því fráleitt eins og haldið hefur verið fram að þessi frumvörp séu tilraun til þess að leiða fram sátt. Þau leiða til hins gagnstæða.

Það sem liggur fyrir er meðal annars þetta:

  • Verði frumvörpin samþykkt, liggur fyrir að um helmingur stærstu sjávarútvegsfyrirtækjanna mun ekki ráða við skuldbindingar sínar.
  • 75% krókaaflamarksútgerðanna (minni bátarnir) samkvæmt úrtaki sérfræðinga komast í greiðsluþrot.
  • Afleiðingar þessa verða síðan stórfelld gjaldþrot þjónustuaðila þessara fyrirtækja um land allt.
  • Sjávarbyggðir og sveitarfélög sem háð eru sjávarútvegi verða fyrir óbætanlegu tjóni. Veldur mikilli röskun byggðar.
  • Virðisrýrnun í sjávarútvegi mun nema hundruðum milljarða króna, sem leiðir síðan til verri viðskiptakjara, hærri fjármagnskostnaðar og er afleiðing af verri rekstri fyrirtækja sem frumvörpin munu hafa í för með sér, verði þau samþykkt.
  • Afskriftir banka og fjármálafyrirtækja munu væntanlega aukast um að minnsta kosti 50 milljarða, vegna áhrifa lagasetningar þeirrar sem er áformuð. Það leiðir til minna svigrúms til annarra skuldaleiðréttinga, hærri vaxtakostnaðar alls almennings, lakari innlánskjara og stórtjóns ríkissjóðs, vegna eignaraðildar ríkisins að fjármálafyrirtækjum.
  • Rökstutt hefur verið að frumvörpin stangist á við stjórnarskrána í veigamiklum atriðum.
  • Sú aðferð sem frumvörpin boða, mun stuðla að lakari umgengni um fiskimiðin og þar með sóun á fiskveiðiauðlindinni.
  • Heildarafrakstur þjóðarinnar og þar með sveitarfélaga og ríkisins af sjávarútveginum mun minnka, þrátt fyrir stórhækkaða gjaldtöku.
Það er því mikið í húfi að horfið verði af þessari ólánsbraut.




Skoðun

Sjá meira


×