Skoðun

Þungur kross brotaþola

Ágústa Arna Sigurdórsdóttir skrifar
Ung stúlka tilkynnir nauðgun í miðborg Reykjavíkur. Í umræðum um málið á netinu lætur ungur maður hafa eftir sér eitthvað á þá leið að hann viti svo sem ekkert um aðstæður en ef stúlkan hafi komið sér í þær aðstæður að henni var nauðgað væri lítið hægt að vorkenna henni. Þessi ummæli voru við mynd í umdeildu myndaalbúmi fyrir nokkrum vikum. Myndaalbúm þetta bar yfirskriftina Karlar sem hata konur og var mikið í umræðunni. Í þeirri umræðu var lítið rætt um þau ummæli sem þar birtust heldur meira um þann einstakling sem safnaði þeim saman. Í hinum ýmsu athugasemdakerfum var þeirri ágætu konu sem setti albúmið saman fundið allt til foráttu en það var eins og enginn setti spurningamerki við þau ummæli sem birst höfðu í þessu albúmi. Enginn setti spurningarmerki við að ábyrgð væri sett á herðar brotaþola í nauðgunarmáli. Þetta var henni að kenna hvort sem er, hún kom sér í þessar aðstæður sjálf.

Síðasta sumar skrifaði ég BA-ritgerð mína í félagsfræði þar sem ég fjallaði um nauðganir og viðhorf til þeirra. Meðal annars skoðaði ég umræðu sem farið hafði fram á opinberum vettvangi um nauðganir og hvaða skilaboð sú umræða sendi út í samfélagið. Sú umræða er nokkuð sérstök, einkum ef umræðan er sett í samhengi við önnur afbrot. Menn sem koma að nauðgunarmálum á æðstu stöðum í réttarkerfinu vilja meina að það skipti máli hversu drukkinn brotaþoli er og að fólk eigi kannski að líta oftar í eigin barm. Flestar nauðgunarkærur eru hvort eð er þannig til komnar að konur sjái eftir öllu saman daginn eftir. Konur eiga ekki að klæða sig eins og druslur til að verða ekki fyrir nauðgun, ekki vera of fullar og hvað í ósköpunum var hún að spá með að fara heim með einhverjum manni sem hún þekkti ekki neitt. Hún getur bara sjálfri sér um kennt.

Í fjölmiðlum er talað um „meintar” nauðganir á sumum mannamótum en því haldið fram fullum fetum að líkamsárásir hafi átt sér stað á öðrum. Fréttir sem þessar hafa jafnvel birst á vefmiðlum. Samtök sem vinna með þolendum í þessum málum gera ekkert annað en að ýta undir nauðganir á útihátíðum og þeir sem standa að slíkum hátíðum eru sagðir fégráðugir í meira lagi og stuðla að því að nauðganir eigi sér stað á þessum mannamótum.

Mér og minni réttlætiskennd er misboðið með slíkri umræðu. Nauðgun er sérstakur glæpur og viðhorfin eru eiginlega ennþá sérstakari. Sá sem ákveður að nauðga er ekki ábyrgur heldur er reynt að finna eitthvað, bara eitthvað til þess að skella skuldinni á brotaþola. Sem verður hálffáránlegt ef reynt er að heimfæra þessi viðhorf yfir á aðrar tegundir afbrota. Ungur maður verður fyrir líkamsárás í Austurstræti seint á laugardagsnóttu. Hann var einn á ferli og klæddur í Hugo Boss jakkaföt. Eða Armani. Eða í þrjátíu þúsund króna Dísel-gallabuxur. Hlýtur þá ekki að gefa auga leið að sá sem fer á djammið í 30 þúsund króna gallabuxum er bara að biðja um að vera laminn? Auk þess var hann sauðdrukkinn og hellti bjór yfir árásarmanninn. Hann átti það skilið.

Nei. Það á það enginn skilið að vera laminn. Og það kallar engin kona yfir sig nauðgun. Þó hún sé í flegnum bol og stuttu pilsi eða hafi verið of drukkin eða hún hafi daðrað við manninn sem nauðgaði henni seinna um nóttina. Ef kona fer eftir öllum þessum varnaðarorðum samfélagsins sem tíunduð voru hér að framan en verður samt fyrir nauðgun þá vaknar hún daginn eftir á bömmer. Ég gerði allt rétt en samt var ráðist á mig? Hvernig má það vera?

Samfélagið sendir ákveðin skilaboð til fólks, þó aðallega til kvenna, um það hvernig það getur minnkað hættuna á því að verða fyrir nauðgun. Ef viðkomandi hagar sér eins og samfélagið vill mun allt fara vel og það kemst í gegnum djammið án vandræða. Þeir sem hegða sér ekki eins og samfélagið vill geta sjálfum sér um kennt – þeir eru sekir. En sekir um hvað? Að hafa farið út að skemmta sér í stuttu pilsi og fengið sér í glas? Er það allt í einu orðið meiri glæpur en nauðgunin sem var framin? Það myndi engum detta í hug að koma með þessi rök ef um væri að ræða líkamsárásarmál. Eða þjófnaðarmál. Eða...

Eins og ég sagði áðan er nauðgun sérstakur glæpur þar sem ráðist er gegn því helgasta sem hver manneskja á, sjálfu kynfrelsinu. En á einhvern hátt er skilaboðunum alltaf beint að þeim sem hugsanlega gætu orðið fyrir broti. Ekki gera þetta og ekki gera hitt svo þér verði ekki nauðgað. Með réttu ætti samfélagið að senda þessi skilaboð til hugsanlegra gerenda og þau ættu að vera mjög einföld, það er að segja EKKI NAUÐGA! Því nauðgun er glæpur. Undir öllum kringumstæðum. Nauðgun er jafnmikill glæpur burtséð frá því hvort viðkomandi hafi daðrað nokkrum klukkustundum fyrir atburðinn eða verið í stuttu pilsi.

Ef samfélagið lítur svo á að það sé konunni í stutta pilsinu að kenna að henni var nauðgað þá hlýtur sá sem fer út að skemmta sér í Armani jakkafötum að bera ábyrgð á því að hann var laminn. Eða þá að samfélagið fari að líta á líkamsárásir og nauðganir með sama hætti. Því hér er um að ræða tvenns konar afbrot sem eru alfarið á ábyrgð þess sem ákveður að fremja þau. Hegðun þess sem verður fyrir brotinu á ekki að skipta mestu máli.

Samfélagið þarf að senda önnur skilaboð þegar kemur að nauðgunum. Skilaboðin verða að vera á þá leið að tekið verði á nauðgunum með sama hætti og tekið er á öðrum afbrotum. Þolendur í kynferðisafbrotamálum ættu að njóta sömu virðingar og aðrir brotaþolar í stað þess að sitja uppi með þungan kross skammar og sektarkenndar. Það er annarra að bera þann kross.




Skoðun

Sjá meira


×