Skoðun

Gullgæsin

Ólafur Hannesson skrifar
Eitt mesta hitamálið þessa dagana er nýjasta kvótafrumvarp ríkisstjórnar Jóhönnu Sigurðardóttur, flestir sem fylgjast með muna eflaust eftir frumvarpinu sem falleinkunn hlaut hjá öllum sem umsagnir gáfu um það frumvarp. Nú virðist ríkisstjórnin ætla að leika sama leik enn á ný, smellir fram frumvarpi sem enginn getur sáttur við unað og markmiðið virðist vera að knésetja og örkumla íslensk sjávarútvegsfyrirtæki, mottóið hjá ríkistjórninni virðist vera að allir skulu hafa það jafn skítt. Hver er annars hugsunin að baki þegar fólk vill ráðast að atvinnustétt sem skapar 40% af útflutningsverðmætum Íslendinga, skapar fjöldann allan af störfum og greiðir skatta og gjöld til ríkisins. Menn vilja kannski frekar að sjávarútvegurinn sé ekki sjálfbær og ríkið þurfi að greiða styrki til að viðhalda sjávarútveginum líkt og gerist í mörgum öðrum löndum.

Lengi hefur verið reynt að halda því fram að útgerðarmenn hafi ekkert þurft að greiða fyrir þær aflaheimildir sem þeir hafa til umráða og þeir séu að ræna af þjóðinni. Nú eru liðin tæp 30 ár síðan kvótakerfið var sett á, úgerðarmenn og sjómenn tóku á sig skerðingu til að reyna að sporna við ofveiði á þeim tegundum sem veiddar eru við Íslandsstrendur. Þegar kvótakerfið var sett á fengu menn úthlutað eftir fyrri veiðireynslu síðastliðin þrjú árin. Frá því að kerfið var sett á hafa um 90% af aflaheimildum skipt um hendur og menn fjárfest í kvóta til að halda fyrirtækjum sínum gangandi, það er því rangt að halda því fram að allir þeir sem starfi í sjávarútvegi hafi fengið kvótann gefinn. Þvert á móti hafa menn tekið á sig miklar skuldbindingar til að starfa innan greinarinnar.

Ennfremur er rangt að halda því fram að útgerðarfyrirtæki greiði ekkert til samfélagsins, við megum ekki gleyma því að Ísland er ein af fáum þjóðum sem hafa arðbæran sjávarútveg, sjávarútvegurinn greiðir skatta, veitir fólki vinnu og gerir viðskipti við fjöldann allan af ótengdum fyrirtækjum sem hafa stóran part af sinni innkomu frá sjávarútveginum. En það eru ávallt einhverjir sem ekki eru sáttir, margir telja að útgerðinni beri að greiða meira en öðrum atvinnuvegum til þjóðfélagsins og virðist það ekki skipta máli að það gerir hann nú þegar í dag með ýmsum gjöldum sem ekki eru sett á önnur fyrirtæki svo sem hærra tryggingargjald vegna sjómanna, veiðigjald sem sett er á skipin og nú tala menn um að það þurfi að hirða 70% af meintum hagnaði útgerðarinnar til ríkisins. Hvar endar þetta?

Nú hefur endurskoðunarfyrirtækið Deloitte gert rannsókn á áhrifum þess frumvarps sem liggur nú fyrir og telur sig geta rökstutt að með því sé verið að hirða um 105% af hagnaði útgerðarinnar séu ákvæði frumvarpsins borin saman við afkomu greinarinna síðastliðin 10 ár. Við getum látið það liggja á milli hluta og horfum á 70 prósentin sem sumum finnst eðlilegt gjald að hálfu útgerðarfyrirtækja að greiða til ríkisins. Hvar á fyrirtæki að finna fjármuni til að greiða af skuldum sínum, til að stunda nýsköpun eða þróun? Er það markmið núverandi ríkisstjórnar að knésetja sjávarútveginn? Þessi þjóð á gullgæs í sjávarútveginum, sjávarútvegurinn gefur til samfélagsins og lifir ekki á ríkisstyrkjum eins og á flestum öðrum stöðum. En ríkistjórnin virðast halda að meira gull fáist frá gæsinni með því að slátra henni og kíkja inn í hana. Þeir sem harðast vega að rekstri sjávarútvegsins virðast ekki gera sér grein fyrir því að aðgerðir þeirra geti gert mikinn skaða sem hefur í för með sér tekjutap fyrir ríkissjóð.

Er ekki kominn tími til að sjávarútvegurinn fái frið til að starfa í þágu þjóðar án þess að vera undir stanslausum árásum frá fólki sem ætti að gleðjast yfir því að það gangi vel í greininni. Við skulum einnig muna að það er ekkert sjálfgefið að vel gangi, velgengni íslensks sjávarútvegs er ekki gefins, hún hefur fengist með mikilli vinnu fólks sem skapar gjaldeyri fyrir íslenska þjóð, vinnu fólks sem er hluti af hinni íslensku þjóð.




Skoðun

Sjá meira


×