Skoðun
Sigríður Ingibjörg Ingadóttir
alþingismaður

Leikur að eldi

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir skrifar

Það hefur vart farið framhjá landsmönnum að umfangsmikið málþóf á sér stað á Alþingi þessa dagana. Tilefnið er tillaga um fækkun ráðuneyta og verkaskipting innan stjórnarráðsins. Frá því vorið 2011 hefur stjórnarandstaðan (Sjálfstæðisflokkur og hluti Framsóknarflokks) rætt skipan stjórnarráðsins af kappi, með hléum. Nú má að sjálfsögðu hafa á þessu máli ólíkar skoðanir eins og öðrum, en að ræða það dögum og vikum saman er nú fullmikið af því góða. Í flestum þingræðisríkjum er fjöldi ráðuneyta og verkaskipting þeirra í millum einfaldlega ákveðin með reglugerð forsætisráðherra. Verkaskipting stjórnarráðsins er talin á ábyrgð ríkisstjórnar en ekki þingsins. Þar sem skipan ráðuneyta er ákveðin með lögum, t.d. í Finnlandi, dytti engum í hug að efna til stórpólitískra deilna eða málþófs í þingsal vegna breytinga á stjórnarráðinu. Langdregin ræðuhöld um stjórnarráðið á Alþingi verður að skoða í þessu ljósi.

Þetta leiðir óneitanlega hugann að því að málþóf er nær óþekkt fyrirbæri í þingræðisríkjum Evrópu. Hollast er okkur að líta til nágranna okkar á Norðurlöndum. Ef þingmenn vilja sterkt þing og sjálfstætt í störfum þá eru norrænu þingin góð fyrirmynd. Hér á landi er gjarnan talað um málþóf sem eðlilegt og sjálfsagt vopn stjórnarandstöðu á hverjum tíma. Nánast er talað um málþóf eins og náttúrulögmál. Ég skora á þá sem verja málþóf að benda á norræn dæmi máli sínu til stuðnings.

Með því að stunda málþóf um fjölda ráðuneyta hefur verið settur nýr mælikvarði um málþóf á Alþingi. Stjórnarandstaðan leikur sér að eldi. Hér eftir verður málþóf réttlætanlegt um hvaða mál sem er, jafnvel fjárlög. Ég skora því á þingmenn stjórnarandstöðunnar að hugsa sig um tvisvar áður en málþófi um fjölda ráðuneyta verður fram haldið. Þingmenn stjórnarflokkanna verða einnig að hugsa með gagnrýnum hætti um þingstörfin enda eru margir þeirra börn hinnar illræmdu málþófshefðar. Málþóf um fjölda ráðuneyta er sjúkdómseinkenni, undirliggjandi er sjúkdómur sem takast þarf á við.
Skoðun

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.