Skoðun

Leiðin til nýja Íslands

Róbert Marshall skrifar
Þó að allar hagtölur bendi til þess að Íslendingum hafi tekist að snúa vörn í sókn er ekki þar með sagt að kreppunni sé lokið. Hún er enda að mjög litlum hluta efnahagslegs eðlis. Hér ríkir hugmyndafræðileg og pólitísk kreppa. Sumir myndu segja tilvistarkreppa. Djúpstæð átök eru um framhaldið. Í grófum dráttum snúast þau um það hvort við viljum „koma öllu í gang aftur" eða byrja upp á nýtt; endurskilgreina samfélagið, markmið þess og grunngildi.

„Er þetta nýja Ísland?" er spurning sem gjarnan er beint til okkar sem sitjum á þingi. Það er erfitt að svara henni. Ekki vegna þess að hún sé svo flókin heldur vegna þess skilnings á samfélaginu sem í henni birtist. Spyrjandinn gerir þá kröfu að einhver komi með „nýja Ísland" til hans. En stjórnmálamenn munu ekki einir og sér búa til nýtt samfélag. Fólkið gerir það. Við öll. Almenningur. Samfélag er samstarfsverk, svo spurningunni sé svarað.

Í spurningunni felst enn fremur meginstef samfélagsins sem hrundi eða: Hvað fæ ég? Hagfræðikenningin sem gengur út á það að samfélögum vegni best ef allir hugsa um það að hámarka eigin hagnað gekk ekki upp. Hún var kjarni þess fjárhagslega Rómarveldis sem byggt var í Borgartúninu og jafnaðist við jörðu fyrir bráðum fjórum árum. Eftir stendur þjóð í kreppu. Þjóð sem einu sinni var sú hamingjusamasta í heimi.

Hagtölurnar sýna okkur að við getum lokið kreppunni. Leiðin til nýja Íslands er fær. Hún er fyrir það fyrsta áfram en ekki aftur á bak. Hún er hreyfing, ekki kyrrstaða. Hún kallar á sameiginlegt átak þings, þjóðar, ríkisstjórnar, ráðuneyta, stjórnmálahreyfinga, stofnana, sveitarfélaga, fyrirtækja, íþróttafélaga, áhugamannahópa, fjölskyldna, trúfélaga og fleiri og fleiri svo við megnum að rífa samfélag okkar upp úr hjólförunum. Hún miðar að því að viðurkenna að við deilum kjörum í þessu landi og eigum það að sameiginlegu markmiði að hámarka möguleika hvers einstaklings til þess að lifa hamingjusömu og heilbrigðu lífi.




Skoðun

Sjá meira


×