Skoðun

Stórmerkur dómur!

Dómur Landsdóms frá 23. apríl 2012 í máli Alþingis gegn Geir H. Haarde, fyrrv. forsætisráðherra, er einn sá merkasti sem upp hefur verið kveðinn hér. Sem vænta mátti var höfuðstarf Landsdómsins að afla upplýsinga í málinu. Það virðist hafa tekist. Tvennt má þó nefna sem kann að hafa skort. Annað lýtur að fjölmiðlafrétt eftir dómtöku landsdómsmálsins um að símtöl starfsmanna Seðlabankans hafi, um og fyrir hrun, verið hljóðrituð. Sé svo, hefði verið mikilsvert að afla hljóðrita af símtölum seðlabankamanna, t.d. Davíðs Oddssonar, formanns stjórnar Seðlabankans, við forsætisráðherra og aðra helstu ráðamenn peninga- og fjármála lýðveldisins fyrir og á hruntímanum.

Hitt atriðið varðar staðhæfingu Geirs H. Haarde, 23. apríl 2012, eftir uppkvaðningu dóms i Landsdómi um að venjubundnir stjórnarhættir forsætisráðherra frá því Ísland fékk fullveldi á árinu 1918 hafi vikið frá ákvæðum 17. greinar stjórnarskrárinnar, nr. 33/1944, einmitt því ákvæði sem Geir var sakfelldur fyrir hafa brotið gegn. Ákvæðið kveður á um að halda skuli ríkisstjórnarfundi um veigamestu þjóðmál.

Staðhæfing Geirs er risavaxin og hlýtur að ögra fræðimönnum, innlendum sem erlendum, í lögfræði sem öðrum félagsvísindum, til rannsókna. Vegna umfangs og leyndar um yfirvofandi hrun á sínum tíma var vel ráðið hjá Landsdómi að ákveða Geir ekki refsingu, rétt eins og Landsdómur starfaði eins og sannleiks- og sáttanefnd.

Boðskapur Landsdóms er bæði augljós og óvæntur, sem sagt sá, að embættismenn, þar með taldir forsætisráðherrar, skuli í opinberum störfum sínum fylgja bókstaf 17. gr. stjórnarskrárinnar en vera annars sakfelldir. Sem sagt, að í opinberum störfum hér beri að lesa lagatexta, bæði stjórnarskrár sem annarra laga og reglna og fylgja þeim. Margir munu spyrja: Er nokkuð augljósara en að opinberir embættismenn sem og aðrir fari að lögum? Nei, auðvitað ekki. En sporin hræða.

Ekki er mjög langt síðan að þáverandi forsætisráðherra, Davíð Oddsson, lýsti 26. gr. stjórnarskrárinnar, um málskotsrétt forseta Íslands, úr gildi fallna vegna notkunarleysis. Meðferð laga um fjölmiðla og Icesave afsönnuðu það. Mál tengd Kárahnjúkavirkjun hafa verið talin vörðuð lögbrotum opinberra embættismanna, nefna má aðild Íslands að stríði gegn Írak, án aðkomu þings og þjóðar, og nú síðast áðurnefnda staðhæfingu Geirs H. Haarde um 17. gr. stjórnarskrárinnar. Miðað við opinbera lagaframkvæmd hér má því segja að Landsdómurinn hafi verið óvæntur.

Þótt fyrr hefði verið!Niðurstaða Landsdóms fyrir hönd réttarkerfisins var löngu tímabær. Hrunið 2008 og ólgusjór þjóðlífsins síðan sem er að setja allt í strand virðist hafa hreyft við dómendum. Gæti verið að þeir væru farnir að óttast um eftirlaunin sín? Það ættu alþingismenn líka að gera nú þegar búið er að stórskaða lífeyristryggingakerfi þorra fólks. Sú lagaframkvæmd sem Fréttastofa RUV virðist talsmaður fyrir, sem sagt að miða sífellt opinbera umræðu og lagaframkvæmd við framreiknaða ársreikninga útgerða, endurskoðenda, banka og lögmanna, á ekkert skylt við réttarríki eða velferð.

Þótt þakka megi núverandi ríkisstjórn margt þarf hún augljóslega að standa betur í lappirnar.

Er ekki kominn tími til að hún hugi að bókstaf jafnréttisákvæða stjórnarskrár og alþjóðasamninga sem Ísland hefur staðfest og dragi til baka frumvarp sitt um stjórn fiskiveiða?




Skoðun

Sjá meira


×