Skoðun

Köfun og öryggi

Anna María Einarsdóttir og Þór H. Ásgeirsson skrifar
Sportköfun er eitt þeirra áhugamála sem er í verulegum vexti í heiminum. Þessi vöxtur endurspeglast í ferðamannaiðnaðinum hér á landi, en mikil aukning hefur verið í köfunartengdri ferðaþjónustu. Nú eru um níu fyrirtæki sem hafa tekjur að hluta til eða í heild af slíkri starfsemi. Sá köfunarstaður sem laðar hvað flesta ferðamenn að er Silfra á Þingvöllum, en þangað koma að jafnaði um 10-15 þúsund ferðamenn til að kafa á ári. Ferðaþjónustuaðilar hafa verið duglegir að markaðssetja Silfru og hafa myndir birst af þeim undraheimi sem Silfra býr yfir í helstu köfunartímaritum heims. Markaðssetningin hefur borið góðan árangur og er Silfra talin vera einn af tíu áhugaverðustu ferskvatnsköfunarstöðum í heiminum.

Með auknum fjölda kafara má því miður einnig gera ráð fyrir auknum fjölda óhappa. Á síðastliðnum árum hafa nokkur slys tengd köfun átt sér stað í Silfru og tvö þeirra alvarleg. Bæði alvarlegu slysin má að nokkru leyti rekja til þess að kafarar höfðu ekki næga köfunarreynslu til þess að kafa í þurrbúningi í köldu vatni og í öðru tilvikinu var menntun leiðsögukafara ábótavant. Af augljósum ástæðum er ekki mikið svigrúm til þess að gera mistök í köfun hvorki hjá leiðsöguköfurum né heldur hjá ferðamönnum sem kafa og í öðru alvarlega tilvikinu kostaði það líf ferðamannsins.

Sportkafarafélag Íslands leggur ríka áherslu á öryggi við köfun og hefur ásamt þeim rekstraraðilum sem selja köfunarferðir kallað eftir breytingum á lögum nr. 31/1996 um köfun og reglugerð 535/2001. Þau lög og reglugerð sem gilda um atvinnuköfun, taka nær einungis mið af köfun sem tengist iðnaði eða björgun verðmæta úr sjó fyrir lögaðila og má segja að lögin og reglugerðin séu í raun barn síns tíma þar sem ekki var gert ráð fyrir að aðrir kafarar en hinir svokölluðu iðnaðarkafarar fengju greitt fyrir störf sín.

Verulegar framfarir hafa orðið í köfunarsamfélaginu síðan lögin og reglugerðin tóku gildi og má segja að tvær gerðir atvinnukafara hafi bæst við, þ.e. ferðaþjónustukafarar og kafarar í þágu almannahagsmuna eins og lögregla og slökkvilið. Báðir þessir hópar fá greitt fyrir köfunarvinnu sína og flokkast því skv. 1. mgr. 2. gr. laganna til atvinnukafara. Bæði lögum og reglugerð þarf að breyta þannig að allir hópar köfunarsamfélagsins rúmist innan þeirra og auki öryggi kafara.

Með aukningu á ferðaþjónustuköfun, þar sem hópar sportkafara skoða undirdjúp Íslands, er nauðsynlegt að tryggja að vel sé staðið að hlutum og að öryggi allra sé með allra besta móti. Köfun á að vera öruggt og skemmtilegt sport eins og fjallganga, klifur, og önnur útivist. Því þarf að gera kröfur um að einungis lærðir kafarar sem hlotið hafa þjálfun í meðhöndlun köfunarslysa og óhappa leiði slíka ferðamannaköfun. Við þurfum reglur sem kveða á um hámarksfjölda kafara á hvern leiðsögukafara í köfunarferðum og við þurfum að tryggja að leiðsögukafarar haldi þekkingu og færni sinni við og séu ávallt þjálfaðir til að bregðast við þeim aðstæðum sem koma upp hverju sinni.

Það er ekki nóg að stjórnvöld standi fyrir því að bjóða ferðamönnum heim með átakinu „Inspired by Iceland” ef við ætlum ekki að gera okkar besta til þess að ferðamennirnir fái bestu og öruggustu þjónustu sem við getum boðið upp á og komist heilir heim.

Sportkafarafélag Íslands kallar eftir ábyrgri afstöðu ráðamanna og skorar á Siglingastofnun og innanríkisráðuneytið að endurskoða nú þegar lög og reglugerð um köfun í samstarfi við þá aðila sem hafa köfun að atvinnu.




Skoðun

Sjá meira


×