Skoðun

Getur barnið þitt bjargað lífi?

Anna G. Steinsen skrifar
Ég sat í bíói í gær og horfði á heimildarmynd frá Bandaríkjunum um einelti og afleiðingar þess. Myndin er beinskeytt, áhrifarík og segir sögur af foreldrum og börnum þeirra sem hafa lent í einelti með hræðilegum afleiðingum. Afleiðingarnar geta varað allt fram á fullorðinsaldur og í sumum tilvikum sviptu fórnarlömb eineltisins sig lífi. Eitthvað sem hefði hugsanlega verið hægt að koma í veg fyrir.

Allir geta orðið fyrir einelti á lífsleiðinni, það þarf því miður oft svo lítið til. Afleiðingarnar eru oft mikil höfnunartilfinning, lítið sjálfstraust, léleg sjálfsmynd og mikil vanlíðan. Úrræðin eru oft og tíðum engin eða allt of lítil. Einelti er að gerast í dag í skólum barna okkar, á vinnustöðum, í íþróttahúsum og á fleiri stöðum og það virðist þrautin þyngri að koma í veg fyrir eineltið þrátt fyrir aukna umræðu, áætlanir, forvarnarplön og fleira.

Eitt af því sem ég tel að sé hvað mikilvægast í þessari baráttu og þarf að vera langtímaplan er að styrkja sjálfsmynd og sjálfstraust allra einstaklinga. Það ætti að vera kennt markvisst í skólum frá 6 ára aldri – mannleg samskipti, sjálfstraust, tjáning og jákvætt viðhorf. Það er ekki bara mikilvægt að styrkja sjálfsmynd þolenda eineltis heldur þarf líka að huga að gerendum. Það er nauðsynlegt að styrkja sjálfsmynd allra barna því stundum þarf ekki nema eitt barn til að stöðva einelti eingöngu með því að þora að taka afstöðu.

Hvað getum við gert sem foreldrar? Þetta byrjar allt heima. Sjáum til þess að börnin okkar séu með heilbrigða sjálfsmynd og gott sjálfstraust. Það gæti bjargað lífi.




Skoðun

Sjá meira


×