Erlent

Vítisenglar smygluðu tonni af hassi

Þrír Vítisenglar voru meðal þeirra fjögurra sem dæmdir voru fyrir stórfellt smygl á hassi.NordicPhotos/Getty
Þrír Vítisenglar voru meðal þeirra fjögurra sem dæmdir voru fyrir stórfellt smygl á hassi.NordicPhotos/Getty
Fjórir menn, þar af þrír núverandi og fyrrverandi meðlimir í mótorhjólasamtökunum Vítisenglum, hafa í Kaupmannahöfn verið dæmdir til fangelsisvistar fyrir stórfellt smygl á tæpu tonni af hassi til Danmerkur.

Mennirnir eru taldir hafa verið stórtækir í hasssölu í Kristjaníu, en um er að ræða 983 kíló af hassi. Efnunum var ekið til Danmerkur og geymd í Hróarskeldu, þaðan sem átti að flytja þau til Kaupmannahafnar.

Smyglið fór fram veturinn 2010 til 2011, en mennirnir voru handteknir í fyrravor. Þeir játuðu óvænt sekt sína fyrir nokkrum dögum. Höfuðpaurinn, Vítisengill á sextugsaldri, fékk fimm ára dóm en hinir vægari dóma, allt niður í þrjú og hálft ár.

Auk þess voru teknar eignarnámi eigur forsprakkans að andvirði margra milljóna danskra króna, en þær voru taldar hafa verið keyptar fyrir ágóðann af fíkniefnasölu.

Hann fær þó að halda glæsibifreið af gerðinni Lamborghini þar sem hún var keypt fyrir lottóvinning að upphæð 5,2 milljóna danskra króna.- þj




Fleiri fréttir

Sjá meira


×