Skoðun

Að virkja fyrir ömmu

Dofri Hermannsson skrifar
Nú vilja ýmsir að lífeyrissjóðirnir okkar verði notaðir til að virkja fyrir frekari stóriðju. Einkum virkjanabransinn og stjórnarmenn lífeyrissjóða sem eru hallir undir stóriðjustefnu. Þegar hafa 14 lífeyrissjóðir keypt 25% hlut í HS orku. Með því hafa þeir stillt hagsmunum ömmu og afa upp með hagsmunum virkjanageirans og á móti hagsmunum náttúrunnar og verndarnýtingar. Rætt er um að lífeyrissjóðir kaupi hluta í Landsvirkjun og eigi Hverahlíðarvirkjun. Þetta er afar varhugavert.

Í fyrsta lagi er mjög áhættusamt að fjárfesta í virkjunum og óvíst að peningarnir skili sér aftur. Einkum eru jarðvarmavirkjanir vandasamar. Þær eru í raun líkari námugreftri en virkjun lindar því eftir 50 ára nýtingu þarf að hvíla viðkomandi jarðhitasvæði í 100-200 ár. Aðeins 12-14% orkunnar eru nýtt, restin fer til spillis. Mengunarbúnaður til að ná brennisteini úr gufunni er of dýr til að það sé gert. Ekki beinlínis jákvætt á öld sjálfbærrar þróunar. Þó er ótalið það sem kannski skiptir mestu máli.

Á Reykjanesskaganum, allt frá Hengli að Reykjanestá, er samfelld náttúruperlufesti sem á sér hvergi samjöfnuð í heiminum. Fjölbreytileiki hverasvæðanna er einstakur og fegurð landsins mikil. Sú staðreynd að þar gengur Atlantshafshryggurinn á land og að þar eru virkar eldstöðvar gerir svæðið óviðjafnanlegt sem jarðminjasvæði. Allt þetta væri vert að vernda fyrir virkjunum og tilheyrandi línulögnum þó enginn græddi neina peninga á því. Bara til að eiga þetta. Svona eins og handritin.

En svo er líka vel hægt að græða á því að vernda þetta einstaka svæði. Áhugi á útivist hefur aukist svo á síðustu árum að skrifum í gestabækur FÍ á Esjunni hefur á áratug fjölgað úr 2-3 þúsund í 12-14 þúsund. Sömu þróun sjáum við í Henglinum og við jarðhitasvæðin í Krýsuvík. Með aukinni áherslu á ráðstefnugesti, sífellt fleiri erlendum ferðamönnum og hækkandi bensínverði eykst verðmæti þessara náttúrusvæða. Að fjárfesta í eyðileggingu þeirra er galið.

Það væri hins vegar skynsamlegt að fjárfesta í verndarnýtingu þeirra. Eldfjallaþjóðgarður hefur verið nefndur sem dæmi. Það viðskiptamódel er vel þekkt og líklega er Yellowstone- þjóðgarðurinn frægasta dæmið. Það sem við höfum að sýna er ekki síðra og er staðsett á milli alþjóðaflugvallar og höfuðborgarinnar. Þá væri hagsmunum afa og ömmu stillt upp með hagsmunum náttúru, umhverfis og komandi kynslóða. Af hverju skoða ekki lífeyrissjóðirnir okkar þennan fjárfestingarkost?

Er þeim stjórnað af virkjanaiðnaðinum?




Skoðun

Sjá meira


×