Skoðun

Lýðræðispopúlistinn

Metnaðarfulla stjórnmálamenn hefur alltaf dreymt um að sagan sýni þá í sem bestu ljósi. Aðeins tveimur leiðtogum í 500 ára sögu Rómarlýðveldisins var veittur eftirsóttasti heiður ríkisins fyrir að bjarga Róm frá glötun og voru þeir þaðan í frá þekktir sem stofnendur Rómar. Sá síðari þeirra var popúlistinn Gaius Maríus. Menn eins og hann sem sækja stuðning sinn til „popúlsins“, sem er latína fyrir „lýðurinn“, hafa alltaf verið hataðir af valdaelítunni sem þeir sniðganga og Ólafur Ragnar Grímsson er engin undantekning.

Eitt er víst. Ólafur Ragnar Grímsson er kominn á lokasprett langs ferils og vill minningu sína sem glæstasta. Undir það síðasta hefur hann reynt að endurskapa sig sem faðir þjóðarinnar, sverð hennar og skjöldur, lýðræðisforseti sem færir þjóðinni vald til að velja sína framtíð sjálf. Annað er víst. Ólafur Ragnar vill ekki falla í skuggann af framtíðarforsetum landsins sem gætu notað málskotsréttinn oftar og betur.

Með því að beita sér fyrir, og skrifa svo undir, nýja stjórnarskrá Stjórnlagaráðs slær Ólafur Ragnar tvær flugur í einu höggi. Hann slær smiðshöggið á minningu sína sem helsta lýðræðisforseta Íslands; fyrsta forseta nýju stjórnskipunarinnar, Nýja Íslands þar sem 10% kjósenda hafa málskotsrétt. Í sama höggi slær hann því málskotsskjöldinn að hluta úr höndum eftirmanna sinna því popúllinn, lýðurinn, getur varið sig sjálfur fyrir löggjafanum að miklu leyti með sínum eigin málskotsskildi.

Forsetakosningarnar í sumar snúast m.a. um málskotsréttinn og nýju stjórnarskrána. Svona orðar Ólafur það í framboðsyfirlýsingunni: „…vaxandi óvissu varðandi stjórnskipan landsins og stöðu forseta í stjórnarskrá.“ Við getum sem kjósendur annars vegar tekið áhættu og valið nýjan forseta sem notar svo hvorki málskotsréttinn né annað neitunarvald sitt, ekki einu sinni þegar þingið breytir stjórnarskránni til að taka það endanlega af embættinu. Gamla Ísland mun tefla fram slíkum frambjóðenda. Við getum hins vegar kosið sitjandi forseta sem líklegastur er til að samþykkja nýju stjórnarskrána sem tryggir að kjósendur sjálfir fái málskotsrétt.

Það skiptir ekki nokkru hvort lesendur trúa á nývaknaða lýðræðisást Ólafs Ragnars. Hann hefur sveipað sig skikkju lýðræðis til að skarta í sögubókunum. Hann hefur valið sér líkklæðin vel og án þeirra er hann „Útrásarforsetinn“ og „Hrunforsetinn“. Honum er því best treystandi til að festa í sessi nýju stjórnarskrána og án beinna lýðræðis, persónukjörs og gegnsæis sem hún tryggir verður gamla Ísland endurreist. Sumir munu eflaust kjósa að láta hatur á gölluðum manni halda sér föngnum á gamla Íslandi. Aðrir munu kjósa lýðræðispopúlistann Ólaf Ragnar Grímsson, geyma hann í sögubókunum og ganga bjartsýnni inn í lýðræðislegri framtíð.




Skoðun

Skoðun

Er þetta eðli­legt?

Guðrún Árnadóttir,Guðrún Tara Sveinsdóttir,Hekla Kollmar,Þorgerður Jörundsdóttir skrifar

Sjá meira


×