Skoðun

Öryggi barna í bílum

Sigrún A. Þorsteinsdóttir skrifar
Í ár stendur Barnaheill fyrir Heillakeðju barna í samstarfi við 12 íslensk fyrirtæki og skipta fyrirtækin sér niður eftir mánuðum. VÍS vinnur með Barnaheillum í aprílmánuði og hefur verið ákveðið að leggja áherslu á tvennt; að safna fé til styrktar Barnaheillum og að kynna 3. grein barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna. Greinin fjallar um að allar ákvarðanir er varða börn skulu byggðar á því sem börnum er fyrir bestu. Að lög og reglur séu settar sem tryggja börnum þá vernd og umönnun sem velferð þeirra krefst og að stofnanir og aðrir þeir sem annast börn uppfylli reglur sem stjórnvöld hafa sett og þá sérstaklega um öryggi, heilsuvernd, fjölda og hæfni starfsmanna.

Stór þáttur sem hefur áhrif á velferð barna er öryggi þeirra í bílum. Þar er hlutverk stjórnvalda að tryggja að ekki sé fluttur inn búnaður og seldur hér á landi sem uppfyllir ekki öryggisstaðla. Lögreglan hefur síðan eftirlitshlutverkið að fylgjast með því að forráðamenn tryggi öryggi barna sinna með réttum búnaði.

Bílbelti eru gerð fyrir einstakling sem er orðinn 36 kíló. Fram að þeim tíma verður barnið að vera í sérstökum öryggisbúnaði í samræmi við þyngd þess. Könnun hefur verið gerð um allt land síðustu 16 ár á öryggisbúnaði barna í bílum þegar þau koma í leikskólann. Á síðasta ári voru 2% barnanna sem komu í leikskólann í fylgd með forráðamanni laus í bílnum og 6% barnanna voru eingöngu í bílbelti. Leikskólabörn á alls ekki setja í bílbelti eingöngu þar sem þau hafa ekki náð þeirri þyngd sem bílbeltið er gert fyrir. Það er ekki fyrr en þau fara að nálgast miðstigið í grunnskólanum sem þau ná þeirri þyngd.

Úrval barnabílstóla er mikið og mörgum reynist valið erfitt. Mikilvægt er að kynna sér vel hvað er í boði. Það þarf a.m.k. þrjár tegundir barnabílstóla til að tryggja öryggi barnsins þar til það fer að nota bílbeltið eingöngu. Finna þarf stól sem hentar þyngd barnsins, ganga úr skugga um að stóllinn passi í bílinn og festa hann í einu og öllu samkvæmt þeim leiðbeiningum sem fylgja.

Fyrsti bílstóllinn, eða ungbarnabílstóllinn, er ávallt bakvísandi. Öruggast er að hafa næsta stól á eftir líka bakvísandi en rannsóknir sýna að börn eru betur varin í bakvísandi stól alveg fram að þriggja til fjögurra ára aldri. Margir forráðamenn skipta of snemma um bílstól fyrir barnið, þ.e. áður en það hefur náð þeirri þyngd sem næsti stóll er ætlaður fyrir. Í flestum tilfellum er best að skipta ekki um stól fyrr en barnið hefur náð þeirri þyngd sem stóllinn er gefinn upp fyrir. Bílbelti á barnið eingöngu að nota þegar það hefur náð 36 kílóa þyngd og þar skiptir öllu að foreldrar láti ekki undan þrýstingi barnanna enda eru það þeir sem ættu að hafa þekkingu á því hvað réttur og góður öryggisbúnaður skiptir miklu máli fyrir alla í fjölskyldunni. Aldrei á að veita afslátt af öryggi barna okkar.




Skoðun

Sjá meira


×