Skoðun

Til varnar forsætisráðherra

Þó ég hafi sjálf aldrei hætt mér út á hinn pólitíska vígvöll hef ég fylgst með stjórnmálum frá því ég hafði þroska til. Svo langt man ég þegar Jóhanna Sigurðardóttir bauð sig fram til þings í fyrsta sinn, full réttlætis til jöfnunar í þjóðfélaginu. Allar götur síðan hef ég fylgst með störfum Jóhönnu og tel að hún hafi aldrei misst sjónar af hugsjón sinni. Því fannst mér sárt að heyra í fréttum að hún nyti aðeins trausts átján prósenta þjóðarinnar.

Jóhanna var kosin til að varða veg þjóðarinnar eftir mikið áfall. Hvort allar hennar ákvarðanir hafa verið réttar get ég ekki dæmt um. Hins vegar er ég sannfærð um að þær hafa verið teknar samkvæmt bestu samvisku, miðað við aðstæður. Löng reynsla hefur sýnt að Jóhanna selur ekki sálu sína né heldur lætur hún fals eða fagurgala villa sér sýn.

Allir þeir sem staðið hafa andspænis persónulegum harmleik í lífi sínu vita að það tekur ár, áratugi eða jafnvel allt lífið að vinna sig frá áfallinu. Hrunið var stórt áfall fyrir þjóðina og spillingin sem því olli er þjóðarböl sem þarf að uppræta. Það er einmitt sú sýn sem Jóhanna hefur að leiðarljósi þó misjafnlega hafi gengið. Eftir þann tryllta dans sem stiginn var skal enginn efa að tíma muni taka að komast á réttan kjöl og að ýmsir munu bera sár sem seint eða aldrei gróa.

Ef við ætlum að rísa upp sem ærleg þjóð skulum við styðja þann leiðtoga sem valinn var til að varða veginn í stað þess að rakka störf hans niður við hvert tækifæri. Það hljóta að vera sameiginlegir hagsmunir okkar allra að land rísi sama hvar í flokki við stöndum. Ef við bregðumst í samstöðunni munum við öll tapa. Það viljum við ekki að gerist.




Skoðun

Sjá meira


×