Lífið

Frumsýna myndband á Íslandi

Rex kemur til Íslands í dag ásamt Atle Pettersen. Þeir frumsýna nýtt myndband á Austri í kvöld.
Rex kemur til Íslands í dag ásamt Atle Pettersen. Þeir frumsýna nýtt myndband á Austri í kvöld.
Norska poppstjarnan Atle Pettersen og rapparinn Rex koma til Íslands í dag. Tilefnið er frumsýningarpartí á skemmtistaðnum Austur vegna myndbands sem þeir tóku upp hér á landi við lagið Amazing.

„Ég hlakka mikið til að koma aftur til Íslands. Síðast vorum við þar í tvo daga við upptökur á myndbandinu en núna höfum við aðeins meiri tíma til að skoða okkur um á Íslandi," segir Rex, sem skemmti sér vel við tökurnar í Atlantic Studios í Keflavík. „Við vorum með flottan hóp í tökuliðinu, 33 manns. Útkoman var frábær og ég er mjög ánægður með myndbandið. Það hefði ekki verið hægt að gera þetta betur." Eins og Fréttablaðið hefur áður greint frá var leikstjóri Gus Ólafsson sem hefur starfað í Los Angeles. Listrænn stjórnandi var Haffi Haff.

Rex er 22 ára rappari sem er fæddur í Nígeríu en flutti ellefu ára til Noregs. „Ég hef verið í tónlistinni í sjö ár en núna er ég í fyrsta sinn að komast upp á yfirborðið. Ég hef verið mikið í neðanjarðarsenunni en núna er ég að koma til móts við stærri hlustendahóp. Það má segja að ég sé að taka stóra skrefið," segir Rex.

Spurður út í samstarfið við Pettersen, sem er mjög vinsæll í Noregi, segir hann að það hafi gengið eins og í sögu. „Það var hálfklikkað hvernig þetta byrjaði hjá okkur. Ég sendi honum skilaboð á Facebook og sagðist vera með lag sem ég vildi að hann hlustaði á. Það var fyrir ári síðan. Hann er frábær listamaður og það hefur verið gott að vinna með honum."

-fb






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.