Lífið

Hópfjármagna Breakbeat-bók

Karl Tryggvason.
Karl Tryggvason.
„Ein mynd segir meira en þúsund orð," segir Karl Tryggvason sem ásamt samstarfsfélaga sínum á Breakbeat.is, Gunnari Þór Sigurðssyni, og hönnuðinum Ragnari Frey Pálssyni, stefnir nú á útgáfu bókarinnar Taktabrot.

Í bókinni verður að finna veggspjöld og annað kynningarefni úr starfi Breakbeat.is síðustu 12 ár. „Hún verður líka hálfgert innlit inn í íslenska hönnunarsögu því rúmlega 60 hönnuðir standa að baki spjaldanna," segir Karl, en jafnt nýliðar sem þaulreyndir hönnuðir hafa unnið að plakötum og fjölbreytileikinn því mikill.

Bókin á eflaust eftir að vekja margar skemmtilegar minningar hjá þeim sem hafa mætt á viðburði Breakbeat.is. „Fyrir hina sem ekki hafa mætt er þetta líka skemmtilegt því þetta eru flott plaköt sem er gaman að skoða," segir Karl sem telur bókina eiga erindi til margra.

Stefnt er á að hópfjármagna bókina og segir Karl það hafa farið mjög vel af stað. „Allir sem styrkja verkefnið fá eintak af bókinni þegar hún kemur út. Það eru þrír mismunandi styrktarpakkar sem hægt er að velja úr, og fær fólk mismikið fyrir sinn snúð eftir því hvaða pakka það velur," segir Karl.

Gangi allt samkvæmt áætlun kemur bókin út þann 24. mars. Mánuði áður, eða 24.febrúar, ætla strákarnir að opna sýningu á plakötunum í Artíma Galleríi á Smiðjustíg.

„Þar getur fólk komið og séð plakötin eins og þau eru í raunstærð," segir Karl og bendir á að nánari upplýsingar um verkefnið og fjármögnunina sé að finna á heimasíðu verkefnisins bok.breakbeat.is. -trs






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.