Lífið

Stjórnmálamenn fá ekki að veita verðlaun Xins

Frosti og Máni ætla ekki að bjóða stjórnmálamönnum að veita tónlistarverðlaun X977.
Frosti og Máni ætla ekki að bjóða stjórnmálamönnum að veita tónlistarverðlaun X977. fréttablaðið/stefán
Útvarpsstöðin X977 stendur fyrir tónlistarverðlaunum í næstu viku. Útvarpsmaðurinn Máni Pétursson segir stöðina vera að svara kallinu, enda hafi slíkar hátíðir verið leiðinlegar síðustu ár.

„Þetta í raun og veru einu tónlistarverðlaun sem eru haldin á Íslandi. Ég segi þetta fullur af auðmýkt og kærleik,“ segir útvarpsmaðurinn Máni Pétursson.

Tónlistarverðlaun X-977 fara fram á Nasa fimmtudaginn 16. febrúar. Björk, Mugison, GusGus og Retro Stefson eru á meðal þeirra listamanna sem eru tilnefndir, en kosning fer fram inni á X977.is.

Spurður hvernig hann getur kallað verðlaunin þau einu á Íslandi, þegar til stendur að veita íslensku tónlistarverðlaunin 29. febrúar, segir Máni að hinn almenni borgari sé ekki velkominn þangað.

„Íslensku tónlistarverðlaunin? Fólki er bara boðið þangað. Hvað er íslenskt við íslensku tónlistarverðlaunin þegar fólk getur ekki einu sinni keypt sér miða og mætt á staðinn?“

Máni segir stoltur að allir listamennirnir sem tilnefndir eru til tónlistarverðlauna X977 kunni á hljóðfæri. „Svo er enginn að setja sig í sérstakar stellingar. Það er enginn klíkuskapur eða leyninefnd,“ segir hann.

Xið hefur ekki veitt tónlistarverðlaun síðustu ár og Máni segir stöðina nú vera að svara kallinu. „Það er svolítið síðan við veittum tónlistarverðlaun. Við höfum fylgst með þessum tónlistarhátíðum í gegnum árin og þær hafa verið svo lélegar,“ segir hann. „Við erum að gera þetta af brýnni nauðsyn. Þetta hefur verið svo leiðinlegt.“ Hann segir verðlaunin fyrst og fremst vera gott partí sem hinn góðkunningi útvarpstöðvarinnar, Gunnar Sigurðarsson, stýrir, kynnir og veitir verðlaun.

„Við ætlum ekki að kalla upp míníseleba og stjórnmálamenn til að veita verðlaun. Við sjáum ekki tilgang í því,“ segir Máni. „Ásgeir Kolbeins, Logi Bergmann og allt þetta lið verður ekki þarna.“

Miðasala á hátíðina fer fram á vefsíðunni Dílar.is.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.