Lífið

Umdeild sem ungfrú Svínka

Margrét Erla í gervi Svínku á Prúðuleikaramyndinni. Húwn fékk misjöfn viðbrögð við uppátækinu.
Margrét Erla í gervi Svínku á Prúðuleikaramyndinni. Húwn fékk misjöfn viðbrögð við uppátækinu.
„Það var rosalega gaman að gera þetta,“ segir Kastljósskonan Margrét Erla Maack.

Hún klæddi sig upp sem ungfrú Svínka þegar hún sá Prúðuleikarana í bíó fyrir skömmu. Með henni í för var vinur hennar sem var í gervi bjarnarins Fossa. Fleiri vinir þeirra ætluðu að koma með í búningum en heltust úr lestinni.

„Þegar það kom í ljós að Prúðuleikaramyndin væri að koma urðum við bæði mjög spennt. Þá sögðum við meira í gríni en alvöru að við skyldum fara í búningum á myndina,“ segir Margrét Erla, sem fékk misjöfn viðbrögð þegar hún mætti í bíóið sem Svínka með gervinef á andlitinu. „Það voru krakkar í bíóinu sem fannst þetta ógeðslega fyndið en fullorðna fólkið átti mjög erfitt með þetta,“ segir hún. „Aðaltilgangurinn með þessu var að gleðja sjálfa mig en líka að gleðja einhverja aðra í leiðinni en fólk horfði á mig eins og ég væri skrítin.“

Margrét Erla hefur alla tíð verið mikill aðdáandi Prúðuleikaranna. „Já, þetta gengur í erfðir. Mamma og pabbi eru miklir Prúðuleikaraaðdáendur og þau fóru alltaf sérstaklega í heimsókn til ömmu og afa því þau áttu litasjónvarp,“ segir hún og hlær. Henni fannst myndin virkilega góð. „Hún stóð fyllilega undir væntingum. Það hefði verið leiðinlegt að vera í búningi ef myndin hefði verið léleg.“

Margrét hefur áður klætt sig upp ásamt vinum sínum fyrir bíósýningar, eða fyrir King"s Speech þar sem hún var klædd eins og hefðarfrú og fyrir Star Wars. „Þetta er ógeðslega gaman. Þetta gerir meira úr venjulegri bíóferð. Það er orðið svo dýrt í bíó að maður verður að búa til aðeins meiri athöfn í kringum þetta.“ - fb






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.