Lífið

Help Them komist að erlendis

Verið er að kanna möguleikann á að gefa út erlendis ensku útgáfuna af laginu Hjálpum þeim, eða Help Them.

„Þetta var gefið út í samvinnu við Hjálparstofnun kirkjunnar. Ætlunin er að koma þessu á framfæri í gegnum samtök sem þau eru tengd sem heita Act Alliance," segir Jóhann G. Jóhannssonar, annar af höfundum lagsins.

Fjögur þúsund eintök af laginu voru prentuð fyrir jólin í von um að safna peningum fyrir hjálparstarf í Austur-Afríku. Útgáfan inniheldur Hjálpum þeim, bæði á ensku og í tveimur íslenskum útgáfum frá árunum 1985 og 2005. Einnig fylgir með mynddiskur með myndböndum við lagið en tæplega 24 þúsund manns hafa séð ensku útgáfuna á Youtube. Meðal þeirra sem syngja lagið á ensku eru Friðrik Ómar, Hafdís Huld, Eyþór Ingi Gunnlaugsson og Selma Björnsdóttir.

„Þetta var hugmynd, meðal annars frá Andreu Jónsdóttur og Óla Palla [Ólafi Páli Gunnarssyni] hvort það væri ekki tímabært að gefa þetta út. Ég bar þetta svo undir Jónas Þórisson sem er framkvæmdastjóri Hjálparstofnunar kirkjunnar," segir Jóhann G.

„Þetta er langtímaverkefni. Tilgangurinn með þessari útgáfu er að þetta sé fastur tekjupóstur hjá Hjálparstofnuninni. Þarna er þetta allt komið saman í eina vandaða útgáfu, bæði á íslensku og ensku, sem útlendingar geta keypt líka." -fb






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.