Skoðun

Trúfrelsi eða vantrúræði?

Jóhann Þorsteinsson skrifar
Í Fréttablaðinu 4. janúar sl. skrifarBjarni Jónsson, varaformaður Siðmenntar, grein sem hann nefnir Trúfrelsi eða trúræði? Hann kemur fram sem varaformaður Siðmenntar en sér ekki ástæðu til að geta þess að hann á jafnframt sæti í Mannréttindaráði Reykjavíkurborgar, ráðinu sem sett hefur á fót mjög svo umdeildar reglur um samskipti skóla og lífsskoðunarfélaga.

Þær eru lúmskar rangfærslurnar sem Bjarni laumar inn í grein sína, væntanlega í þeirri von að hafa megi áhrif á skoðanir fólks og réttlæta tilburði Mannréttindaráðs til að takmarka frelsi skólastjórnenda til samskipta við kirkjur og trúfélög. Hann kýs að líta svo á að þeir fjölmörgu aðilar sem gert hafa athugasemdir við nýjar reglur Reykjavíkurborgar séu að berjast fyrir því að halda inni trúboði sem kirkjan hafi stundað í leik- og grunnskólum í einn til tvo áratugi. Það er barnalegt að halda því fram að gagnrýnin sé til að reyna að viðhalda einhverjum nýjungum sem komið hafa fram á síðustu tuttugu árum.

Málið snýst vitanlega um það, og komst þess vegna í hámæli á ný um jólin, að fjölmargir skólar hafa átt ánægjuleg og heilbrigð samskipti við presta og kirkjur í undirbúningi jólanna og í því er ekki falið trúræði, líkt og Bjarni telur, heldur viðurkenning á því að kristni er sá siður sem öðrum fremur hefur mótað samfélag okkar í þúsund ár. Að fela kirkjuna fyrir nemendum, líta svo á að hún sé þeim hættuleg og starfsemi hennar brjóti á mannréttindum er í raun alvarlegasta brotið sem við sem samfélag getum framið í þessum efnum. Vissulega skiptir máli í samskiptum skóla og kirkju að gætt sé að því að taka tillit til þess að nemendur koma frá ólíkum heimilum og tilheyra ólíkum trúfélögum eða standa utan þeirra.

Bjarni er upptekinn af þeirri ógn sem skólastarfi stendur af „gildishlöðnu boðunarstarfi trúfélaga“ en honum yfirsést sú mikilvæga staðreynd að kennsla er í eðli sínu gildishlaðið starf og um það má lesa í fjölmörgum fræðigreinum. Skólinn er í sífellu að miðla gildum og það er hin sístæða glíma kennarans að forðast veg innrætingarinnar og efla með nemendum sjálfstæða og gagnrýna hugsun. Boð og bönn eru ekki farsæll farvegur fyrir mótun skólasamfélagsins. Þar er meiri þörf á trausti, faglegri forystu stjórnenda og opinni umræðu um þau gildi sem móta samfélag okkar. Með útilokun hins trúarlega litrófs samfélagsins erum við óhjákvæmilega að innræta nemendum skólasamfélagsins heimsmynd hins trúlausa.

Að lokum get ég ekki annað en mótmælt þeirri fullyrðingu Bjarna að hann sé að kalla eftir raunverulegu trúfrelsi. Það sem hann er að kalla eftir er að í skólum landsins sé raunverulegt vantrúræði. Siðmennt hefur um margra ára skeið barist fyrir því að í opinberum skólum fari fram veraldlegt hlutlaust starf og þar stendur kannski hnífurinn í kúnni. Heimsmynd sem í huga húmanistans er veraldleg og hlutlaus er ekki hlutlaus í huga kristins manns heldur er hún afhuga kristninni og sem slík er hún því hlutdræg.

Það er ekki þar með sagt að ég aðhyllist boðun trúar inni í skólum en heilbrigð samskipti við kirkjur og trúfélög eru af hinu góða. Raunverulegt trúfrelsi er mér mikils virði, hver svo sem trúin er, og ég vil því að við sem samfélag stöndum vörð um að virða og lyfta upp þörf einstaklingsins til að eiga sína trú, rækta hana og iðka, frjáls og án ótta.

Höfundur er menntaður grunnskólakennari og starfaði sem slíkur í mörg ár. Jafnframt félagi í Gídeon og starfar í dag sem Sviðsstjóri æskulýðssviðs KFUM og KFUK á Íslandi.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Skoðun

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.