Lífið

Undirbýr útrás næringardisksins

Norðurlandanna Vöruhönnuðurinn Hafsteinn Júlíusson ætlar að koma skartgripum sínum og næringadisk á framfæri erlendis í ár.
Norðurlandanna Vöruhönnuðurinn Hafsteinn Júlíusson ætlar að koma skartgripum sínum og næringadisk á framfæri erlendis í ár. Fréttablaðið/valli
„Þetta er mjög spennandi og við heppin að fá að vera með," segir vöruhönnuðurinn Hafsteinn Júlíusson sem þessa daga undirbýr sína fyrstu för á vörusýningu erlendis.

Vörurnar sem Hafsteinn ætlar að sýna á sýningunni Check IN 12 í Stokkhólmi er skartgripalína úr íslenskum mosa og nýjustu afurð sína: næringadiskinn. Næringadiskurinn er matardiskur með hinni gömlu góðu næringartöflunni á og á diskurinn að aðstoða eiganda sinn að velja rétt hlutföll næringar. Hafsteinn var að fá fyrstu sendinguna í hús og segir það hafa verið smá sjokk að taka 1000 diska upp úr kössunum. „Þetta er í fyrsta sinn sem við eigum til lager af vöru en hingað til höfum við einungis verið að afgreiða pantanir frá búðum. Fyrir jólin fengu við til dæmis pöntun upp á 200 skartgripi frá verslun í Dubai sem við urðum að hafna því við áttum ekki til neinn lager."

Hafsteinn fékk sérstakt boð á hönnunarsýninguna Check In 12, sem er haldin dagana 7-12 febrúar, en aðeins 10 hönnuðum er boðið. Sýningin er haldin samhliða stóru húsgagnasýningunni Stockholm Furniture Fair.

„Við komust í samband við Stefan Nilson, framkvæmdastjóra sýningarinnar sem hreifst af vörunum okkar. Við erum í raun mjög heppin að komast þarna inn því þetta er fámennur hópur hönnuða sem fær að sýna," segir Hafsteinn en Stokkhólmur verður fullur af kaupendum og blaðamönnum víðs vegar að á þessum tíma. „Við erum að fara á svona sýningu í fyrsta sinn og markmiðið er að koma okkar vörum að í Norðurlöndunum á þessu ári."

Þess má geta að fleiri íslenskir hönnuðir taka þátt í Stockholm Furniture Fair eins og Netagerðin, Lighthouse, Reynir Sýruson og Á Guðmundsson.

- áp






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.