Skoðun

Eru Íslendingar vel menntuð þjóð?

Því er iðulega slegið fram sem sönnu að þrátt fyrir bágan efnahag og erfitt ástand hafi Ísland fulla burði til þess að rétta úr kútnum á skömmum tíma og reisa hér endurbætt og öflugra samfélag. Í þessari algengu orðræðu er því haldið fram að Íslendingar séu umfram allt svo vel menntuð þjóð. Slíkar fullyrðingar eru sérstaklega algengar í stjórnmálum.

Staðreyndin er þó sú að slíkar fullyrðingar eru ekki á rökum reistar. Samkvæmt nýjustu tölum OECD eru 36% Íslendinga á aldrinum 25-34 ára með háskólapróf. Samanborið við önnur norræn ríki er ástandið vægast sagt slæmt þar sem 47% Norðmanna, 45% Dana, 42% Svía og 39% Finna á sama aldri hafa lokið námi við háskóla. Þá kemur Ísland ekki einungis illa út í samanburði við nágrannaþjóðir heldur er komið niður fyrir meðaltal OECD.

Árið 2008 var Ísland í 18. sæti af 34 löndum OECD þegar kemur að opinberum fjárframlögum til háskóla. Ísland varði árlega að meðaltali 10.429 Bandaríkjadollurum á hvern háskólanema. Til samanburðar var meðaltal OECD ríkjanna 13.717 dollarar og Svíar settu yfir 20.000 Bandaríkjadal á hvern sinn nemanda. Síðan þessar tölur voru birtar hafa framlög ríkisins verið skorin niður um um það bil fjórðung á Íslandi. Þetta þýðir að verið er að reyna að reka háskólakerfi að norrænni fyrirmynd fyrir rétt rúmlega 40% af fjármagninu.

Ástandið er slæmt og mun versna með hverju ári nema vitundarvakning verði á mikilvægi þessa málaflokks fyrir framtíðarhorfur í lífsgæðum og atvinnumálum í landinu. Bæði nefndir og sérfræðingar hafa skilað skýrri afstöðu til málsins, nú sé ekki tíminn til þess að draga saman seglin í menntamálum, þvert á móti að nú sé tími til þess að efla þau. Þessi skilaboð hafa verið látin sem vindur um eyru þjóta.

Frá „hruni" hafa fjárframlög til háskólanna verið skorin verulega niður að raunvirði. Á sama tíma er þeim gert að taka inn fleiri nemendur en áður. Framlag á hvern nemenda er því að lækka og það mun óhjákvæmilega koma niður á gæðum kennslunnar og skólanna allra. Nú þegar aldrei hefur verið mikilvægara að útskrifa vel menntaða einstaklinga og fá hingað til lands góða nemendur erlendis frá, stefnir allt í hnignun metnaðarfullra háskóla sem geta ekki staðið undir væntingum sem til þeirra eru gerðar.

Háskólar verða að geta boðið starfsfólki sínu upp á spennandi vinnuumhverfi og samkeppnishæfar aðstæður og laun og komi ekki til stórtækra stefnubreytinga í þessum málum er ekki langt í að það verði ekki fært. Umræðan um laun stundakennara hefur vart farið fram hjá neinum og starfsfólk háskólanna vinnur við kjör sem engan veginn samræmast þeirri hæfni, menntun og reynslu sem það hefur.

Aukinheldur verða háskólarnir að bjóða íslenskum nemendum aðstæður og gæði sem eru sambærileg valkostum erlendis. Námsmenn eiga rétt á þeirri lágmarkskröfu að íslenskir háskólar bjóði þeim upp á námsgæði til jafns við það sem tíðkast á löndunum í kringum okkur. Ef fram heldur sem horfir er framtíðin ekki björt í íslensku háskólastarfi. Viljinn til þess að gera vel er til staðar og á síðustu árum hefur verið unnið þrekvirki með tilliti til niðurskurðar og þess fjármagns sem skólarnir fá. Hættan er sú að vel unnin verk skólanna komi nú í bakið á þeim. Stjórnvöld verða að gera sér grein fyrir því að vel heppnaður niðurskurður er ekki tilefni til frekari niðurskurðar.



Kristján Pétur Sæmundsson, formaður Stúdentafélags HR 2011-2012

Ebba Karen Garðarsdóttir, formaður Stúdentafélags HR 2012-2013

Sara Sigurðardóttir, formaður Stúdentaráðs HÍ 2012-2013




Skoðun

Sjá meira


×