Bandarísk kona sem glataði iPhone snjallsímanum sínum í skemmtisiglingu fyrir nokkru hefur nú haft upp á ræningjanum. Þjófurinn tók nokkrar ljósmyndir með símanum en þær birtust allar í tölvu konunnar.
Katy McCaffrey tók fyrst eftir myndunum þegar hún opnaði iCloud reikninginn sinn. Ljósmyndirnar voru af ýmsum toga. Þar á meðal voru seiðandi myndir af sólarlagi, fólk að skemmta sér og nokkrar sem sýndu starfsfólk skemmtiferðaskipsins.
Flestir myndirnar áttu þó eitt sameiginlegt. Á nokkrum mátti nefnilega sjá karlmann á þrítugsaldri en hann reyndist vera sá fingralangi.
Katy hefur nú birt myndaalbúm á samskiptamiðlinum Facebook en þar má sjá ljósmyndirnar.
Svo virðist sem að þjófurinn hafi skemmt sér allt of vel til að slökkva á Photostream þjónustunni sem stýrikerfi iPhone snjallsímanna býður upp á. Þegar mynd er tekin í gegnum Photostream birtast þær um leið á þeim tölvum sem tengdar eru snjallsímanum.
Katy hafði samband við fyrirtækið sem rekur skemmtiferðaskipið. Þjófurinn reyndist vera starfsmaður á skipinu. Honum hefur verið vikið úr starfi og mun Katy fá símann sinn aftur von bráðar.

