Erlent

Heitt sumar veldur köldum vetri

Kaldari og snjóþyngri vetur gætu tengst hækkandi hitastigi yfir sumartímann að mati vísindamanna.
Kaldari og snjóþyngri vetur gætu tengst hækkandi hitastigi yfir sumartímann að mati vísindamanna. Fréttablaðið/Pjetur
Hækkandi hitastig yfir sumartímann gæti valdið því að veturnir verði kaldari og snjóþyngri, samkvæmt nýrri kenningu umhverfisvísindamanna. Þeir telja þetta líklega skýringu á öfgafullu veðurfari á norðurhveli jarðar á undanförnum árum.

Kenningin byggir á rannsóknum á veðurfari á norðurhveli síðustu tvo áratugi. Vísindamennirnir telja að hærra hitastig á sumrin og haustin, sem leiðir til aukinnar bráðnunar heimskautaíssins, valdi því að aukinn raki safnist uppi í háloftunum. Sá raki fellur yfir vetrartímann sem snjór, eins og Íslendingar ættu að hafa orðið varir við þennan veturinn.

Í grein vísindamannanna, sem birtist í vísindaritinu Environmental Research Letters, segir að þessi kenning gæti einnig skýrt óvenjulegt veðurfar á Flórída í Bandaríkjunum síðasta vetur, þegar snjókoma varð fjölmörgum hitabeltisdýrum að fjörtjóni.

„Í mínum huga er enginn efi um að hitastigið í heiminum fer hækkandi,“ segir Judah Cohen, sem unnið hefur að rannsókninni. „Þrátt fyrir það tel ég að þessi þróun valdi því að það snjói meira, sem veldur staðbundinni kælingu umfram það sem áður var talið eðlilegt. Ég sé enga ástæðu fyrir því að það ætti að draga úr þessari þróun á næstunni.“ - bj




Fleiri fréttir

Sjá meira


×