Erlent

Skylmingameistarinn sem lék Svarthöfða er látinn

Maðurinn sem lék Svarthöfða í skylmingaratriðum upprunalegu Stjörnustríðsmyndanna er látinn. Hann stjórnaði skylmingaratriðum í mörgum af frægustu myndum seinni ára.

Það var Skylmingarfélag Bretlands sem tilkynnti um dauða hins 89 ára Bob Anderson. Hann keppti í Ólympískum skylmingum fyrir hönd Bretlands árið 1952. Hann keppti síðan á heimsmeistaramótinu í skylmingum árið 1950 og 1953. Anderson sérhæfði sig í klassískum skylmingum með riddarasverð.

Lengi vel var ekki vitað að Anderson hefði klæðst kufli Svarthöfða í Stjörnustríðsmyndunum. Því var upphaflega haldið leyndu af leikstjóranum George Lucas. Það var síðan leikarinn Mark Hamill sem greindi frá hlutverki Anderson í viðtali árið 1983. Hamill fór með hlutverk Loga Geimgengils í upprunalega þríleiknum.

Anderson var þekkt nafn í kvikmyndabransanum og starfaði við útsetningu skylmingaratriða í mörgum þekktum kvikmyndum. Þar á meðal eru From Russia with Love, The Legend of Zorro og Pirates of the Caribbean: The Curse of the Black Pearl.

Anderson sá einnig um að þróa skylmingarstíl söguhetjanna í kvikmyndunum um Hringadróttinssögu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×