Viðskipti innlent

Gunnar Andersen: "Nú þurfa menn að þétta raðirnar"

Þorbjörn Þórðarson skrifar
Gunnar Þ. Andersen íhugar að fara í skaðabótamál standi ákvörðun stjórnar Fjármálaeftirlitsins um að víkja honum úr starfi þar sem hann telur hana byggjast á ólögmætum grundvelli. Þá sakar lögmaður Gunnars stjórnina um að leggja hann í einelti í bréfi til stjórnarformanns FME. Í áður óbirtu bréfi sem Gunnar ritaði Ástráði Haraldssyni hæstaréttarlögmanni fyrr í þessum mánuði segir hann vandséð hvernig stjórn FME eigi að gera upp á milli ólíkra matsgerða sem unnar hafa verið um hæfi hans.

Það var á stjórnarfundi Fjármálaeftirlitsins í gær sem tekin var ákvörðun um að biðja forstjóra stofnunarinnar að láta tafarlaust af störfum. Grundvöllur ákvörðunar stjórnarinnar er álitsgerð hæstaréttarlögmannsins Ástraðs Haraldssonar og endurskoðandans Ásbjörns Björnssonar. Í henni komast þeir að þeirri niðurstöðu að hæfi Gunnars sé ekki hafið yfir allan vafa því komið hafi fram „upplýsingar um atvik sem eru til þess fallnar að kasta rýrð á hæfi Gunnars Þ. Andersen til að gegna starfi forstjóra Fjármálaeftirlitsins."

Snýst ekki um getu, heldur ímynd og traust

Málið snýst ekki um hæfni Gunnars eða getu til að vera forstjóri FME. Þá hafa samskipti Aðalsteins Leifssonar, stjórnarformanns FME og Gunnars verið góð og ekki orðið teljandi árekstrar þeirra í millum, samkvæmt upplýsingum fréttastofu.

Málið snýst um hluti sem gerðust fyrir rúmum tíu árum þegar Gunnar var framkvæmdastjóri alþjóða- og fjármálasviðs Landsbankans og sat í stjórnum aflandsfélaganna LB Holding og NBI Holdings. Í nóvember sl. ákvað FME að meta hæfi Gunnars að nýju eftir umfjöllun Kastljóss RÚV um stjórnarsetu Gunnars í umræddum félögum.

Fyrir liggur í málinu að Gunnar, sem framkvæmdastjóri alþjóða- og fjármálasviðs Landsbankans, upplýsti ekki um félögin í svörum til Fjármálaeftirlitsins árið 2001, eins og gera mátti kröfu um.

Óskað var eftir nýrri álitsgerð frá Andra Árnasyni, hæstaréttarlögmanni, sem hafði haustið 2010 unnið álitsgerð um nákvæmlega sama mál og komist að þeirri niðurstöðu að Gunnar væri hæfur til að vera forstjóri. Í álitsgerðinni frá 2010 er fjallað um svör Gunnars til FME árið 2001 fyrir hönd Landsbankans og í álitsgerðinni segir orðrétt: „verður ekki talið að svar GÞA geti talist hafa verið ámælisvert, en telja má að það hafi verið aðfinnsluvert. Í ljósi framanritaðs er ekki talin ástæða til að draga í efa hæfi GÞA nú til að gegna skyldum sem forstjóri Fjármálaeftirlitsins."

Þetta sjónarmið var síðan áréttað í nýrri álitsgerð Andra frá 12. janúar sl., en þar er ekki umfjöllun um nein ný gögn, að undanskildum upplýsingum frá innri endurskoðanda bankans sem tengdust upplýsingagjöf varðandi áðurnefnd aflandsfélög. Andri sá ekki ástæðu til að endurskoða fyrir niðurstöðu sína: Gunnar var að hans mati hæfur til að vera forstjóri.

Í álitsgerð Ástráðs Haraldssonar og Ásbjörns Björnssonar, sem er dagsett 16. febrúar sl. segir að ekki sé ástæða til að draga í efa mat Andra á hæfi Gunnars.

„Ástæðulaust er því að draga í efa niðurstöðu Andra Árnasonar um hæfi Gunnars Þ. Andersen (...) Mat okkar er eigi að síður að fram hafi komið upplýsingar um atvik sem eru til þess fallnar að kasta rýrð á hæfi Gunnars Þ. Andersen til að gegna starfi forstjóra Fjármálaeftirlitsins," segir í álitsgerðinni. Ekki verður séð að það sé rökstutt með afmörkuðum hætti hvað þetta sé nákvæmlega, heldur virðist vera um að ræða heildstætt mat á málinu.

Myndi einhver úr viðskiptalífinu komast í gegnun nálaraugað?

Í álitsgerð þeirra Ástráðs og Ásbjörns segir jafnframt að rannsóknir á hæfi Gunnars hafi verið ítarlegar og staðið um langa hríð. „Ekki er örgrannt um að sú hugsun leiti á að vandasamt kynni að verða að finna til starfans einstakling sem án athugasemda stenst skoðun af þessum toga," segir þar, en þarna er að því er virðist gefið í skyn að mjög erfitt verði að finna nokkurn mann, sem stenst hæfnisskilyrði varðandi menntun, reynslu og annað, sem komist í gegnum nálaraugað um hæfi sem gera verði kröfu um.

Tengsl við bankann setja hann ekki í erfiða stöðu vegna fárra mála

Þá skoðuðu þeir Ástráður og Ásbjörn svokallað neikvætt hæfi Gunnars. Þ.e hvort sú afstaða hans að segja sig frá öllum málum sem varði gamla Landsbankann sé þess eðlis að hann sé útilokaður fyrir fram til að taka ákvarðanir í allmörgum málum, en sú óskráða meginregla gildir í stjórnsýslurétti að maður er útilokaður frá því að taka við opinberu starfi þegar aðstaða hans er sú að hann muni fyrirsjáanlega oft verða vanhæfur til meðferðar einstakra mála. Er þessi regla kölluð reglan um neikvætt hæfi.

Þeir Ástráður og Ásbjörn öfluðu upplýsinga um þetta hjá Gunnari og um þetta atriði segir í álitsgerðinni: „Fram kom að þessi ákvörðun snerti í reynd afar fá mál sem stofnunin (FME innsk.blm) hefur til úrlausnar og veldur því örsjaldan vanhæfi. Í ljósi þessara upplýsinga teljum við ekki að sú ákvörðun Gunnars að víkja sæti í málum gamla Landsbankans sem hafa verið, og eru til umfjöllunar á fundum stjórnar FME valdi vandkvæðum að því er varðar neikvætt hæfi."

Leitar réttar síns verði þetta niðurstaðan

Að sögn Skúla Bjarnasonar, lögmanns Gunnars Þ. Andersen, íhugar Gunnar nú að höfða skaðabótamál gegn stjórn FME eða ríkinu verði það niðurstaðan að segja honum upp á þeim grunni sem rakinn var framar. Hann lítur svo á að með endurskoðuðu hæfi hans í stjórn Fjármálaeftirlitsins sé um er að ræða endurupptöku á fyrri ákvörðun en hann lítur svo á að ástæða til endurupptöku sé ekki lögmæt þar sem engin ný gögn eða upplýsingar réttlæti hana. Engar ástæður hafi komið fram sem réttlæti endurskoðað mat á hæfi hans til að gegna starfi forstjóra FME.

Í bréfi sem Skúli ritaði Aðalsteini Leifssyni, stjórnarformanni FME, í gær fyrir hönd Gunnars koma fram ásakanir um einelti stjórnarinnar gagnvart Gunnari og að Gunnar muni leita réttar síns verði hann fyrir tjóni.

„Verði umbjóðandi minn fyrir réttarspjöllum, fjártjóni eða álitshnekki vegna eineltis stjórnar og vanhugsaðra ólögmætra aðgerða mun verða leitað leiða til þess að gera þá persónulega ábyrga sem að því kæmu," segir í bréfi Skúla, sem stílað er á Aðalstein, en afrit fengu Arnór Sighvatsson, aðstoðarseðlabankastjóri sem situr í stjórn FME og Ingibjörg Þorsteinsdóttir í stjórn FME. Aðalsteinn Leifsson vildi ekki tjá sig um efni bréfsins en sjá má viðbrögð hans við því í myndskeiði hér.



„Nú þurfa menn að þétta raðirnar"

Þegar fyrir lágu drög að álitsgerð þeirra Ástráðs og Ásbjörns fékk Gunnar tækifæri til að rita andmæli. Í bréfi hans til Ástráðs, sem er dagsett 9. febrúar 2012 og fréttastofan hefur undir höndum, segir orðrétt: „Vandséð er hvernig stjórn FME ætti í kjölfarið á nýju trúverðugleikamati að gera upp á milli hinna ýmsu mata, hafi hún annað borð á því áhuga. Kannski að leita eftir enn öðru? Á hvaða heimild yrði svo slík ný ákvörðun stjórnar byggð? Þannig mætti sjálfsagt lengi spyrja. Það að aðilar sem þegar eru til rannsóknar hjá FME, eða gætu lent þar, reyni að kasta rýrð á trúverðugleika undirritaðs er auðvitað ekkert annað en við mátti búast og yrðu væntanlega örlög allra þeirra sem í minn stól myndu setjast. Nú þurfa menn að þétta raðirnar en ekki hið öndverða." thorbjorn@stod2.is






Fleiri fréttir

Sjá meira


×