Lífið

Dagur í lífi ritstjóra

Hrund Þórsdóttir, ritstjóri tímaritsins Mannlíf
Hrund Þórsdóttir, ritstjóri tímaritsins Mannlíf Mynd/Karl Petersson
Hrund Þórsdóttir, ritstjóri tímaritsins Mannlíf

Fimmtudagur 24.maí 2012

7.30: Vekjaraklukkan hringir. Ég vakna syngjandi og dríf mig út að hlaupa áður en ég skelli í lummur og útbý hollt nesti fyrir daginn. Spaug. Morgnar eru ekki mín sterkasta hlið. Ég var samt vöknuð á undan klukkunni í þetta sinn enda ekki búin að venjast íslensku sumarbirtunni; var að koma heim úr nokkurra mánaða heimsreisu og bý hjá ættingjum fyrstu dagana ... án myrkragardína!

8.30: Við kærastinn, Óskar Páll Elfarsson ljósmyndari, mætum í Efstaleitið því ljúflingarnir í Morgunútvarpi Rásar tvö ætla að spjalla við okkur um ferðalagið góða. Blöðrum svo mikið að við náum bara að tala um tvær heimsálfur af þeim fimm sem við heimsóttum...

9.15: Mæti í vinnuna á nýjan stað; á meðan ég var erlendis flutti Birtíngur, sem gefur út Mannlíf, af Lynghálsi á Lyngás. Frumlegt. Set í fimmta gír enda þarf næsta tölublað Mannlífs að komast í prentsmiðju í dag.

12.00: Bölva morgunletinni og óska þess að ég hefði útbúið nesti. Skrepp í Hagkaup, salatbarinn er vinur minn!

15.30: Samþykki síðustu blaðsíðurnar og sendi Mannlíf í prentun. Hlutirnir gerast hratt þessa dagana.

18.00: Mæti á tilvonandi heimili mitt í Bólstaðarhlíðinni með fiðrildi í maganum og krota nafnið mitt á leigusamning. Brosi hringinn og sé fram á notalega sumardaga á Klambratúninu.

19.00: Bretti upp ermar ásamt góðu fólki og klára að þrífa nýja heimilið. Við ætlum að flytja inn á morgun, enda þriggja daga helgi framundan.

22.30: Hlamma mér í sófann hjá tengdó og horfi á Eurovision undankeppni frá því fyrr um kvöldið. Ég tilheyri eldhressum vinahópi sem gerir mikið úr keppninni á hverju ári, svo það er eins gott að vera með á nótunum.

01.00: Sofna áður en ég leggst á koddann.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.