Skoðun

Kæru yfirmenn

Hjörtur Traustason skrifar
Þetta er opið bréf til yfirmanna minna, Jóhönnu og Steingríms.

Kæru yfirmenn. Ég er bara venjulegur tveggja barna fjölskyldufaðir. Ég á enn þá gamalt túbusjónvarp. Ég fer ekki í utanlandsferðir og á ekki snjallsíma. Ég er ekki óreiðumaður en samt er alltaf að verða erfiðara og erfiðara að lifa. Ekki finn ég fyrir því að kreppan sé að minnka. Ég stend enn í skilum og vil borga skatta til að leggja mitt á vogarskálarnar. En ég er í rusli yfir því hvernig ég eigi að kaupa föt á börnin mín. Er ekki rétt að ríkið hætti að hafa tekjur af nauðþurftum barnafjölskyldna? Virðisaukaskattur af barnavörum og aukagjöld tengd námi barna eiga ekki að vera tekjulind fyrir ríkið. Eða hvað finnst ykkur?

Kæru yfirmenn. Ég treysti því fyrir síðustu kosningar að vinstri flokkarnir ykkar myndu hugsa vel um barnafjölskyldur. En púðrið hefur farið í að passa að fólk geti haldið áfram að borga bönkunum. Í dag hugsar fólk sig tvisvar um að eignast börn. En auðvitað vill fólk eignast börn. Til þess er maður kominn hingað. Að sá niður fræjum og fá fallegan garð. Ég sé núna að það er bara í raun einn flokkur alltaf við völd. Sama þó það sé vinstri stjórn þá fá peningamennirnir alltaf meira og aðrir minna.

Kæru yfirmenn. Það er að koma vetur og ég er ekki vongóður. En ég get ekkert gert nema haldið áfram að vinna og borga og bíða eftir kosningunum í vor. Vonandi velja barnafjölskyldur landsins sér þá betri yfirmenn ef þið sannið ykkur ekki fyrir okkur í vetur.




Skoðun

Sjá meira


×