Skoðun

Sátt um stjórnarskrárbreytingu?

Skúli Magnússon og Ágúst Þór Árnason skrifar
Í beiðni stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis um álit Feneyjanefndarinnar á frumvarpi til nýrrar stjórnarskrár felst í raun viðurkenning á því að fagleg heildarúttekt á tillögum Stjórnlagaráðs sé forsenda frekara framhalds málsins. Þessi viðurkenning kemur hins vegar ekki aðeins seint heldur skortir einnig á að Íslendingar hafi unnið nauðsynlega heimavinnu svo að nefndin geti komið að málinu með markvissum og uppbyggilegum hætti. Í ljósi þeirrar stöðu sem upp er komin bendir því margt til þess að stjórnarskrármálið haldi áfram að flækjast fyrir mönnum, e.t.v. þannig að það dagi uppi á yfirstandandi þingi. Niðurstaða þess endurskoðunarferlis sem hafið var 2010 yrði þá sú að engar breytingar væru gerðar á stjórnarskrá lýðveldisins. Þetta teljum við miður.

Við höfum áður lýst þeirri skoðun okkar að um ákveðnar breytingar á stjórnarskránni sé fyrir hendi breið samstaða, a.m.k. með tilliti til grunnmarkmiða og efnisatriða. Hér má einkum nefna náttúruvernd og auðlindanýtingu, þjóðaratkvæðagreiðslur að kröfu almennings, stjórnarskrárbreytingar, framsal valds til alþjóðastofnana í þágu friðar og alþjóðasamvinnu og styrkingu á stöðu og eftirlitsvaldi Alþingis. Síðastliðið sumar kynntum við hugmynd í frumvarpsformi sem byggist á þessum grundvelli (sjá stjornskipun.is).

Ekki fer á milli mála að það er hlutverk Alþingis að hlúa að stjórnskipun landsins og gera þær breytingar á stjórnarskránni sem teljast nauðsynlegar. Alþingi hefur legið undir ámæli um að hafa sinnt þessu hlutverki slælega á undanförnum áratugum og er sú gagnrýni ekki alveg úr lausu lofti gripin. Að okkar mati er ljóst að í samfélaginu eru nú útbreiddar væntingar til þess að ákveðin endurskoðun fari fram á stjórnarskránni. Þessar væntingar fá hljómgrunn í fræðilegri umfjöllun um stjórnskipunarmál.

Það hlýtur því að teljast brýnt verkefni stjórnmálamanna að bregðast við þannig að ljóst sé að Alþingi standi undir ábyrgð sinni sem stjórnarskrárgjafi. Í því felst að kanna ber þann grundvöll til sátta sem allt bendir til að sé fyrir hendi um ýmis atriði. Þótt slíka vinnu mætti kenna við "lágmarksbreytingu" (samanborið við hina nýju stjórnarskrá Stjórnlagaráðs) gæti hér allt að einu verið um að ræða umfangsmestu breytingu á íslenskri stjórnarskrá frá upphafi.




Skoðun

Sjá meira


×